

Paul Scholes, fyrrverandi miðjumaður Manchester United, hefur opinberað að ákvörðun hans um að hætta sem sérfræðingur í sjónvarpi hafi verið tekin til að geta sinnt syni sínum Aiden, sem er 20 ára og með alvarlega einhverfu.
Í tilfinningaþrungnu viðtali í Stick to Football-hlaðvarpinu, sem Gary Neville stýrir, lýsti Scholes bæði áskorunum og gleðinni sem fylgir föðurhlutverkinu.
Scholes, sem er 50 ára, var lengi fastagestur í sjónvarpsumfjöllun um enska og evrópska leiki, en hefur nú dregið sig til hlés og einbeitir sér að hlaðvarpi. „Allt sem ég geri núna snýst um daglega rútínu Aiden,“ sagði hann.
„Hann þarf mikla reglu og skipulag, svo ég ákvað að laga allt mitt líf að hans.“

Aiden, sem er ekki með talmál, var greindur með alvarlega einhverfu þegar hann var tveggja og hálfs árs. Scholes og fyrrverandi eiginkona hans, Claire Froggatt, skipta vikunni jafnt á milli sín. „Við höfum þrjár nætur hvor með honum, og á föstudögum er hann hjá ömmu sinni,“ útskýrði hann.
„Á þriðjudögum förum við í sund og fáum pizzu á leiðinni heim. Á sunnudögum förum við í Tesco þar sem hann fyllir kerruna af súkkulaði. Hann veit ekki hvaða dagur er, en hann þekkir dagana eftir því sem við gerum.“
Scholes bætti við: „Hann getur ekki talað, en hann skilur miklu meira en fólk heldur. Við sem erum honum næst skiljum hljóðin hans.“