
Liverpool gengur verr en nokkru öðru liði í fimm stærstu deildum Evrópu, eftir að hafa tapað sex af síðustu sjö leikjum sínum.
3-0 tap gegn Crystal Palace í deildabikarnum í gær var enn eitt áfallið fyrir lið Arne Slot, sem nú er þriðji líklegasti stjóri ensku úrvalsdeildarinnar til að missa starfið sitt samkvæmt veðbönkum. Aðeins Vitor Pereira hjá Wolves og Nuno Espirito Santo hjá West Ham eru ofar á þeim lista.
Liverpool er ríkjandi Englandsmeistari en þrátt fyrir mikla fjárfestingu síðasta sumar hefur lítið gengið á þessari leiktíð.
Liðið mætir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina og þarf að rífa sig í gang, en liðið er sjö stigum á eftir toppliði Arsenal.