

Gary Neville telur að Arne Slot verði að taka Milos Kerkez úr byrjunarliðinu hjá Liverpool eftir slæm úrslit Englandsmeistaranna.
Liverpool hefur ekki unnið deildarleik síðan í lok september og hefur tapað síðustu fjórum leikjum sínum gegn Crystal Palace, Chelsea, Manchester United og nú Brentford, þar sem liðið tapaði 3-2 á laugardaginn.
Slot hefur sjálfur viðurkennt að frammistaðan gegn Brentford hafi verið sú versta á hans tíma hjá félaginu og pressan eykst á að liðið nái vopnum sínum á ný áður en árið rennur sitt skeið.
Neville, sem ræddi málið í The Gary Neville Podcast á Sky Sports, telur að Slot þurfi að bregðast við –og að það gæti þýtt að nýliðinn Kerkez verði tekinn úr liðinu þrátt fyrir að hafa skorað gegn Brentford.
„Það eru margir þessara leikja þar sem þeir hefðu getað unnið ef þeir hefðu nýtt færin,“ sagði Neville.
„Í byrjun tímabils fannst mér bakverðirnir ekki vera að standa sig og stundum Konaté heldur ekki, en Van Dijk og Alisson héldu þessu saman.“
„En nú er þetta orðið eins konar vírus. Þetta er ekki lengur bara í vinstri bakverðinum, þó að mér finnist Kerkez orðinn áhyggjuefni. Hann skoraði, já en miðað við spilamennskuna held ég að hann þurfi að fara úr liðinu.“
Neville bætti við að hægri bakvarðarstaðan væri einnig óleyst. „Frimpong er ekki náttúrulegur bakvörður og Conor Bradley er efnilegur, en það er erfitt að læra hlutverkið þegar liðið er að fá mörk og pressan er mikil.“