

Ég var í liðinni viku staddur í Washingtonborg í Bandaríkjunum ásamt hópi nemenda minna. Meðal viðkomustaða var hinn víðkunni Arlington-kirkjugarður þar sem hvíla ríflega 400 þúsund hermenn á 259 hekturum lands. Þarna eru grafnir tveir Bandaríkjaforsetar, John F. Kennedy og William Howard Taft. Kennedy er oft talinn meðal þeirra merkari, alltént einhver þekktasti, en Taft síður. Forveri Tafts, Theodore Roosevelt og eftirmaður, Woodrow Wilson, eru álitnir hafa átt farsælli valdaskeið. Í tíð Roosevelts og Wilsons voru háðar styrjaldir en friður ríkti þegar Taft var forseti. Mælikvarði á það hversu merkir menn teljast ræðst ef til vill af því hversu viðburðaríka tíma þeir lifa. Þetta minnir á Ólaf III, konung Noregs 1067–1093, sem fékk viðurnefnið „kyrri“ enda fer litlum sögum af ófriði á hans valdaárum.
Í blöðum og tímaritum vestanhafs birtast reglulega úttektir á því hvaða Bandaríkjaforsetar teljast þeir merkustu í sögunni og sú niðurröðun er vitaskuld ólík eftir því við hvaða mælikvarða er stuðst. Sumar umfjallanir af þessum toga eru lítið annað en dægradvöl en stundum liggur yfirlega sagnfræðinga til grundvallar. Þetta leiðir aftur hugann að því hvernig við myndum flokka okkar æðstu stjórnmálaleiðtoga, forsætisráðherrana — hverja við teldum þá merkustu.
Fyrir nokkrum dögum birtist á Vísi grein eftir framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, Helga Héðinsson, sem lofar Sigurð Inga Jóhannsson í hástert, en sem kunnugt er hefur hann tilkynnt að hann hyggist senn láta af formennsku. Helgi segir áratuginn 2013–2024 „Framsóknaráratuginn“ þar sem lífskjör hafi styrkst meira en nokkru sinni. Orðrétt segir Helgi: „Undir forystu Sigurðar Inga lifði íslenskt samfélag einn öflugasta áratug í sögu landsins.“
Fyrir utan að sitthvað hefði betur mátt stíla í pistli Helga þá þykir mér mærðarlegt tal hans um formann sinn eilítið brosleg. Fyrir það fyrsta var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra framan af umræddu tímabili og Sigurður Ingi aðeins forsætisráðherra í rúmt misseri, helming þess tíma í starfsstjórn. Stjórnarforystan var síðan í annarra höndum. Í ofanálag segir Helgi Sigurð Inga vera „einn helsta leiðtoga í sögu flokksins, og einn merkasta stjórnmálamann aldarinnar“. Svona heldur uppskrúfuð mærðarrollann áfram svo vísuorð Steingríms Thorsteinssonar koma upp í hugann: Með oflofi teygður á eyrum var hann / svo öll við það sannindi rengdust.
Menn þurfa ekki yfirgripsmikla þekkingu á þjóðmálum til að skilja að Sigurður Ingi Jóhannsson er ekki í hópi okkar merkustu stjórnmálaleiðtoga. Skrif framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins minna á erindi það sem Björn Bjarnason, fyrrv. ráðherra, hélt um formannsskeið Bjarna Benediktssonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins síðastliðið vor. Sú umfjöllun einkenndist samt sem áður af ólíkt meiri vísdómi og orðkyngi en rolla Helga Héðinssonar. Björn hafði einnig sett niður penna strax í kjölfar þess að Bjarni tilkynnti um afsögn. Þar seildist hann of langt í samanburði, líkti Bjarna við Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson eldri. Til samanburðar þá setti Helgi Sigurð Inga í flokk með Hermanni Jónassyni, Eysteini Jónssyni, Ólafi Jóhannessyni og Steingrími Hermannssyni. Orðrétt sagði Björn að Bjarni yngri væri „áhrifamesti flokksforingi landsins frá kjöri 2009“. Bjarni var samt sem áður aðeins forsætisráðherra í skamma hríð, á árunum 2017 og 2024.
Ekki leikur á tvennu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var áhrifamesti stjórnmálamaður landsins framan af umræddu tímabili og Katrín Jakobsdóttir frá árinu 2017 — aðrir ráðherrar máttu sjá sæng sína upp reidda eftir að Katrín var horfin á braut. Ólafur Arnarson, blaðamaður hér á DV, gerði skrif Björns Bjarnasonar um Bjarna að umtalsefni í pistli hér á þessum miðli og rifjaði upp ummæli Styrmis Gunnarssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem hafði komist svo að orði við brotthvarf Geirs Hallgrímssonar úr stóli formanns Sjálfstæðisflokksins 1983 að þar með væri tími hinna stóru leiðtoga Sjálfstæðisflokksins á enda runninn. Það reyndust meiriháttar öfugmæli. Geir var stjórnarformaður Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og Björn Bjarnason er náfrændi Bjarna yngri. Hagsmunir og náin tengsl eiga það til að villa mönnum sýn.
En hverja væri þá rétt að telja áhrifamestu forsætisráðherra síðasta aldarfjórðunginn eða svo? Í upphafi aldarinnar var Davíð Oddsson á hátindi sinna valda en brátt hallaði undan fæti og líklega er fjölmiðlamálið eftirminnilegast frá þeim tíma. Það markaði á ýmsan hátt endalok stjórnmálaþátttöku þeirra beggja, Davíðs og Halldórs Ásgrímssonar, arftaka hans á forsætisráðherrastóli. Ólafur Ragnar Grímsson, sem fór mikinn um það leyti, var þó rétt að byrja og átti fyrir höndum viðburðarík ár á Bessastöðum.
Bankahrunið batt enda á skammvinna setu Geirs H. Haarde á stóli forsætisráðherra, en ég hygg að sagan verði honum vilhöll — sér í lagi vegna setningar neyðarlaganna sem í reynd björguðu íslenskum efnahag í kjölfar falls viðskiptabankanna haustið 2008. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir framlengdi síðan kreppuna með misviturlegum rástöfunum. Loks var kröfuhöfum bankanna settur stóllinn fyrir dyrnar þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð forsætisráðherra. Hans forsætisráðherratíð hlaut þó snautlegan endi. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hófu Katrínu Jakobsdóttur til æðstu metorða síðla árs 2017, fyrsta sósíalistann á stóli forsætisráðherra. Fjárhagur ríkissjóðs versnaði verulega á valdaskeiði Katrínar, þá var svo illa haldið á útlendingamálum að vandi sem þeim fylgir er orðinn nálega óviðráðanlegur og þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs ykjust stórkostlega voru brýnar opinberar framkvæmdir látnar sitja á hakanum. Ríkisstjórnir Katrínar tel ég að muni því hljóta dapurleg eftirmæli.
Merkastan íslenskra forsætisráðherra frá aldamótum álít ég vera Geir H. Haarde. Hann lifði viðburðaríkari tíma en hinir og tók réttar ákvarðanir á ögurstundu. Vitaskuld mætti hér leggja ýmsa aðra mælikvarða til grundvallar og útkoman yrði þá ef til vill önnur enda eru æfingar af þessum toga umfram allt samkvæmisleikur.