

Rúben Amorim segir að hann hafi aldrei fundið fyrir þrýstingi frá Sir Jim Ratcliffe, minnihlutaeiganda Manchester United, þrátt fyrir slæm úrslit síðustu vikna.
Eftir tap gegn Brentford og dapra frammistöðu í borgarslagnum gegn Manchester City fóru sögusagnir að ganga um að staða Amorim væri veik.
Ratcliffe steig þá fram og lýsti yfir fullum stuðningi við portúgalska þjálfarann og á Old Trafford á laugardag fékk hann að sjá lið sitt spila einhvern sinn besta leik tímabilsins í sannfærandi sigri á Brighton.
Amorim sagði eftir leikinn að hann hefði aldrei efast um verkefnið – en að það væri stuðningsfólkið sem honum væri mest umhugað um. „Ég hef aldrei fundið fyrir neinni skömm eða óöryggi yfir því sem ég er að gera eða jafnvel yfir því að vinna ekki alla leiki,“ sagði hann. „Jim hefur alltaf vitað og skilið hvað við erum að byggja. Hann hefur trú á verkefninu.“
Hann bætti þó við að það væri erfitt að mæta stuðningsmönnum þegar úrslitin snúist gegn liðinu. „Það sem er erfiðast er að horfa í augun á stuðningsfólki þegar tapleikir raðast saman. Það er þess vegna sem maður finnur fyrir brýnni þörf til að vinna næsta leik.“
Amorim ítrekaði að knattspyrna sé óstöðug í eðli sínu. „Í fótbolta getur allt breyst á einni viku. Þess vegna verðum við að njóta dagsins í dag, en einbeita okkur strax að næsta leik.“