

Eddie Howe kaus að svara kurteislega og sleppa því að taka þátt í orðaskaki við Arne Slot, eftir að þjálfari Liverpool vísaði til Newcastle sem minna félags og gagnrýndi hvernig Alexander Isak hafi verið meðhöndlaður áður en hann kom til Anfield.
Slot hélt því fram að undirbúningstímabil Isak hjá Newcastle í sumar, þar sem hann æfði takmarkað vegna meiðsla hefði valdið því að hann hafi ekki verið í fullu leikformi þegar hann kom til Liverpool.
Sænski framherjinn meiddist á nára í 5-1 sigri Liverpool á Frankfurt á miðvikudag og mun líklega missa af einhverjum leikjum. Hann hefur aðeins skorað eitt mark í átta leikjum síðan 125 milljóna punda félagsskipti hans gengu í gegn.
Slot sagði meðal annars: „Þú getur ekki borið saman leikmann sem hefur ekki æft yfir undirbúningstímabilið hjá minni klúbbi við það þegar þú kemur sem stórt kaup til Liverpool. Aðstæður og álag eru allt öðruvísi.“
Howe neitaði að svara beint gagnrýninni en tók upp hanskann fyrir Newcastle og vinnubrögð félagsins.
„Aðstaðan hér er mjög góð,“ sagði hann.
„Við erum ekki fullkomin og eigum enn eftir að bæta okkur, en eigendurnir hafa gert miklar úrbætur síðan ég kom. Núna er verið að byggja enn meira þannig að aðstaðan verði enn betri.“
Hann bætti við: „Við erum með afreksíþróttamenn hér og hingað til höfum við haldið vel utan um þá. Ég hef engar kvartanir varðandi umönnun leikmanna.“