fbpx
Þriðjudagur 09.desember 2025
EyjanFastir pennar

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig

Eyjan
Föstudaginn 24. október 2025 06:00

Bieber-hjónin. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var sameiginleg ákvörðun meðal tískumeðvitaðra á Íslandi að það væri ekki lengur í boði að mæta tvisvar í sama dressi. Kannski gerðist þetta þegar við hættum að fara í veislur og byrjuðum að mæta á „viðburði“. Ertu að fara í skírnarveislu? Nei, ég er að fara á viðburð.

Þróunin hófst líklega upp úr aldamótum, þegar orðasambandið „að sýna sig og sjá aðra“ var stytt um seinni helminginn. Um svipað leyti og við fengum stafrænar myndavélar og gátum skjalfest lífið án þess að þurfa að borga bólugröfnum graðhestum á framköllunarstofu fyrir að gramsa í okkar helgustu augnablikum. Mögulega rauk líka framleiðsla á íslensku dónaefni upp úr öllu valdi á þessum tíma. Það væri verðugt rannsóknarefni fyrir þjóðfræðinema – eða bara einhvern pervert.

Á flestum heimilum stóðu heimilistölvurnar eins og fútúrísk eldstæði með heiðurssess í stofunni, á sérútbúnu tölvuborði úr Rúmfatalagernum með forstjórastól úr kínversku pleðri. Þessar tölvur voru ekki sambandi við umheiminn, eins og snjalltæki nútímans, heldur voru þessar heimilistölvur sambandið við framtíðina.

Við þurftum auðvitað að deila þessum sístækkandi sorphaugum af sjálfsmyndum. Rétt eins og góðir gestgjafar sem sóttu hnausþykk fjölskyldualbúm og buðu gestum að grúska í fortíðinni yfir rjómatertum og prestakaffi í tóbaksgulum íbúðum fyrir fjörutíu árum. „Hver er þetta?“ var spurt með kaffiandfýlunni og þá þurfti að sækja lesgleraugun og svo var pírt í myndina og hún jafnvel tekin úr glansandi plastinu til að skoða betur, spáð og spekúlerað þangað til niðurstaðan var að þetta væri sennilega bara einhver brottfluttur nágranni.

Íslenskar stórfjölskyldur rembdust við að setja upp svokallaðar fjölskyldusíður hjá íslenskum myndabönkum þar sem hægt var að deila sín á milli skemmtilegum myndum og jafnvel skrifa skemmtilega athugasemd. Þessar síður gleyptu sjálfsmyndaflórinn. „Þarna er Nonni frændi á stullunum í sumó, alveg blindfullur.“ Þessu var síðan læst með lykilorði. Síðurnar voru á endanum teknar niður. Enginn veit hvar myndin af Nonna frænda blindfullum á stullunum er í dag. Kannski er það bara allt í lagi. Það þurfa ekki allar heimildir að lifa. Facebook tók við þessum ósköpum og síðar Instagram, Snapchat, Tiktok og þeirra arftakar. Enginn veit hvað ég tala um þegar ég minnist á stafræna myrkrið.

Ég er að fara á árshátíð með lagadeildinni í byrjun nóvember. Á þessari árshátíð er ætlast til að gestir klæðist sparifötum. Myndin sem kemur upp í huga mér við tilhugsunina er ekki myndin af sjálfri mér á árshátíðinni heldur hugsa ég um myndirnar af mér á árshátíðinni, eftirlifandi heimildaskráningu. Mun ég myndast þokkalega ef ég verð í þessu? Hvaða ættkvísl dýraríkisins mun ég vera í forsvari fyrir í þessum kjól?

Fatnaðurinn er löngu hættur að snúast um sjálfan viðburðinn heldur liggur áherslan í því hvernig ég varðveitist persónulega menningarminninu. Hailey Bieber, fræg af síðum slúðurmiðla, snyrtivörumógúll og sem eiginkona fullorðna unglingsins Justin Bieber, framleiðir snyrtivörur sem eru sérhannaðar með enga sérstaka virkni að markmiði, aðra en að taka speglasjálfur með vörurnar og sýna þannig fram á þátttöku í tískuhagkerfinu. Þetta eru vörur sem eru festar á símahulstur og hugmyndin með vörunum er að taka sjálfsmyndir sem sýna vöruna á mynd.

Við erum öll saman á endastöð hérna. Ég vona að minnsta kosti að við getum sameinast um það. Þangað til eitthvað fífl mætir og tekur selfie á rústunum. #feelingblessed

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Einum leiðarstjarna – öðrum mýrarljós

Þorsteinn Pálsson skrifar: Einum leiðarstjarna – öðrum mýrarljós
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Engin dulnefni hér, takk

Nína Richter skrifar: Engin dulnefni hér, takk
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli
EyjanFastir pennar
08.11.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjólað í snjókomu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjólað í snjókomu
EyjanFastir pennar
07.11.2025

Nína Richter skrifar: Þegar kærastar urðu asnalegir

Nína Richter skrifar: Þegar kærastar urðu asnalegir