Fyrrverandi Sky Sports-þulurinn Richard Keys hefur gagnrýnt þjálfara Liverpool, Arne Slot, fyrir það sem hann kallaði kjánaleg ummæli eftir að Liverpool vann Frankfurt 5-1 í Meistaradeildinni.
Liverpool sneri við taflinu í Þýskalandi eftir að hafa lent undir snemma, en mörk frá Hugo Ekitike, Virgil van Dijk, Ibrahima Konaté, Cody Gakpo og Dominik Szoboszlai tryggðu sannfærandi sigur.
Eftir leikinn sagði Slot að helsti munurinn á þessum leik og þeim fjórum á undan, sem allir töpuðust eins og mikið hefur verið fjallað um, hefði verið að Liverpool hefði sjálft nýtt föst leikatriði í stað þess að fá á sig mörk úr þeim. Hann bætti við að lið sitt hafi stýrt leiknum betur.
„Hvaða kjánlagega yfirlýsing er þetta? Nú vita allir hvernig á að vinna Liverpool, langir boltar. Þeir nenna ekki slagnum,“ skrifaði Keys á X eftir leik.
Liverpool mætir næst Brentford í ensku úrvalsdeildinni, liði sem þekkt er fyrir að vera sterkt í föstum leikatriðum.