Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn gengur í gegnum mikla erfiðleika um, þessar mundir. Reksturinn hefur verið erfiður um langt skeið og sér ekki til lands í þeim efnum. Ein ástæðan fyrir þessum erfiðleikum er án efa sú staðreynd að RÚV fær, auk þess að þiggja 6-7 milljarða í gegnum nefskatt, að keppa af fullu afli á auglýsingamarkaði. Fyrir þessu finna allir einkareknir fjölmiðlar en þetta er ekki eina ástæðan fyrir taprekstri Sýnar.
Vegna ofangreindra rekstrarerfiðleika hefur Sýn þurft að grípa til þess að segja upp starfsfólki og um langt skeið hefur verið orðrómur um að mikill og gagnger niðurskurður standi fyrir dyrum á fréttastofu Sýnar. Slíkt er ekki gamanmál og allir hljóta að hafa samúð með því fólki sem stendur frammi fyrir því að missa vinnuna vegna niðurskurðar og uppsagna.
Eitt af því sem stjórnendur Sýnar og raunar einnig Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, hafa kvartað undan og bent á sem orsök rekstrarvanda fyrirtækjanna er að ríkisstjórnin lækkaði eilítið hámarkið sem einstakir fjölmiðlar mega fá af fjölmiðlastyrk frá ríkinu. Hámarkið er lækkað úr 25 prósent niður í 22 prósent og áhersla lögð á að styrkja frekar litla fjölmiðla, t.d. úti á landi, sem reiða sig að verulega leyti á styrkinn til að tryggja rekstrargrundvöll sinn.
Lækkun hámarksins þýðir að ríkisstyrkurinn til Morgunblaðsins og Sýnar lækkar um u.þ.b. 15 milljónir króna fyrir hvort fyrirtækið um sig. Árvakur velti á síðasta ári 4,5 milljörðum króna og tapaði tæplega 300 milljónum. Orðið á götunni er að 15 milljónir geri ekki gæfumuninn þar.
Sýn velti á síðasta ári tæplega 22 milljörðum og þarf af var velta fjölmiðlahluta félagsins tæplega 9,6 milljarðar. Tap ársins nam tæplega 1,6 milljörðum. Orðið á götunni er að 15 milljónir til eða frá skipti litlu máli þar.
Morgunblaðið hefur um árabil verið í eigu sægreifa sem beita blaðinu og öðrum miðlum Árvakurs af hörku til að verja sérhagsmuni sína. Sást það vel í málþófinu um veiðigjöldin í vor og sumar. Nær allan þann tíma sem sægreifarnir hafa átt Morgunblaðið hefur verið mikill taprekstur á því. Eigendunum finnst það ásættanlegur herkostnaður við að eiga fjölmiðil sem stendur 100 prósent með sérhagsmunum þeirra. Orðið á götunni er að vel megi setja spurningarmerki við það hvort slíkur fjölmiðill, sem hefur það hlutverk eitt að standa vörð um sérstaka hagsmuni eigenda sinna, eig yfirhöfuð að fá krónu í styrk frá skattgreiðendum. Þá má rifja upp að Morgunblaðið varð undir í samkeppninni við Fréttablaðið hefur það fengið meira en 10 milljarða króna í afskriftir lána frá ríkisbönkum.
Orðið á götunni er að sægreifarnir láti sér ekki nægja að eiga Morgunblaðið sem sinn einkafjölmiðil heldur séu þeir að læsa klóm sínum líka í Sýn. Greinilega séu ítök þeirra orðin veruleg í félaginu. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur tekið sæti í stjórn Sýnar. Hún er ekki þekkt fyrir að liggja á skoðunum sínum eða hafa sig lítið í frammi hvar sem hún kemur. Vel má merkja stefnubreytingu í fréttaflutningi miðla Sýnar og einnig annars staðar í miðlum félagsins.
Orðið á götunni er að það sé válegt fyrir frjálsa fjölmiðlun á Íslandi ef sægreifarnir ná öllum tökum á tveimur langstærstu fjölmiðlafyrirtækjum í einkaeigu.
Orðið á götunni er að óvarlegt sé að kenna yfirburðastöðu RÚV í íslenskri ljósvakamiðlun einni um mikinn og vaxandi taprekstur Sýnar undanfarið. Ýmsar misráðnar og kostnaðarsamar ákvarðanir hafi verið teknar af stjórnendum félagsins sem eigi ekki síður sök á tapinu.
Sýn yfirbauð Símann og tryggði sér útsendingarrétt á enska boltanum næstu árin fyrir fúlgur fjár. Svo virðist sem fyrirtækið hafi gert sér vonir um að geta eitt selt áskriftir að enska boltanum. Orðið á götunni er að stjórnendur Sýnar hefðu átt að vita betur vegna þess að Síminn var, að kröfu Sýnar og fleiri aðila, skikkaður til að veita öðrum ljósvaka- og fjarskiptafélögum aðgang að enska boltanum til að þau gætu selt áskriftir. Það þýddi að það þurfti alls ekki að vera áskrifandi hjá Símanum til að kaupa áskrift að boltanum. Hvers vegna héldu stjórnendur Sýnar að það hefði breyst?
Orðið á götunni er að kostnaður við nýlega „andlitslyftingu“ á Sýn og miðlum þess, þegar m.a. einu þekktasta og vinsælasta vörumerki landsins, Stöð 2, var hent á haugana, hafi hlaupið á hundruðum milljóna og engu skilað. Þessi kostnaður er margfaldur fjölmiðlastyrkurinn og hvað þá þegar horft er til þeirra 15 milljóna lækkunar sem stjórnendur barma sér yfir.
Orðið á götunni er að lítil eftirspurn sé eftir miðli sem ætli sér að stunda viðlíka áróður fyrir sérhagsmuni sægreifanna og Morgunblaðið hefur grímulaust gert um árabil. Þá séu galnar ákvarðanir núverandi eigenda og stjórnenda Sýnar slíkar að þær ógni mögulega störfum tuga starfsmanna fyrirtækisins, ógni jafnvel tilveru félagsins í núverandi mynd.