La Liga, efsta deild Spánar, hefur staðfest að áform um að halda deildarleik milli Barcelona og Villarreal í Miami í desember hafi verið slegin af borðinu. Stjórnarmenn Villarreal eru allt annað en sáttir.
Í ágúst samþykkti spænska knattspyrnusambandið að leikur Villarreal gegn ríkjandi meisturum Barcelona yrði leikinn á Hard Rock-leikvanginum í Miami þann 20. desember.
Leikurinn hefði verið sá fyrsti í sögu La Liga sem færi fram utan Spánar, en hugmyndin mætti mikilli gagnrýni frá bæði leikmönnum og stuðningsmönnum. Síðastliðna helgi mótmæltu leikmenn með því að bíða í 15 sekúndur áður en hver leikur hófst, og áhorfendur lýstu áhyggjum af ferðalögum og aðgengi.
Nú hefur La Liga hins vegar staðfest að leikurinn verði ekki haldinn í Bandaríkjunum, eftir að samstarfsaðili deildarinnar í Norður-Ameríku, Relevent Sports, ákvað að draga sig út úr verkefninu vegna neikvæðra viðbragða heima fyrir.
„Eftir viðræður við skipuleggjanda leiksins í Miami hefur hann ákveðið að hætta við viðburðinn vegna óvissu sem skapast hefur á Spáni undanfarna daga. La Liga harmar mjög að þetta verkefni, sem var sögulegt tækifæri til að alþjóðavæða spænska fótboltann, geti ekki orðið að veruleika,“ segir í tilkynningu deildarinnar.
Leikurinn verður því í staðinn spilaður á heimavelli Villarreal, Estadio de la Cerámica, og segir La Liga ákvörðunina högg fyrir vöxt og útbreiðslu spænska boltans alþjóðlega.
Forseti Villarreal, Fernando Roig Negueroles, fékk fregnirnar meðan á Meistaradeildarleik liðsins gegn Manchester City stóð og brást reiður við. Að sögn Marca mátti sjá það vel er hann talaði í símann.
„Ég tel þetta algert virðingarleysi, bæði gagnvart stjórnarmönnum, leikmönnum og stuðningsmönnum Villarreal. Að tilkynna þetta í miðjum leik og hætta við áform sem búið var að samþykkja er óásættanlegt,“ sagði hann svo eftir leik.
Barcelona lýsti yfir því að félagið virði og samþykki ákvörðunina en bætti við að félaginu finnist leitt að fá ekki tækifæri til að kynna spænska boltann betur á alþjóðavettvangi.
Samhliða þessu staðfesti ítalska knattspyrnusambandið að leikur AC Milan og Como í Serie A sé áfram á dagskrá í Perth í Ástralíu í febrúar næstkomandi.