Dómarinn Manuela Nicolosi hefur gagnrýnt kynjaða menningu í fótbolta og segir að henni hafi einu sinni verið sagt að draga úr útliti sínu þar sem hún vakti of mikla athygli.
Nicolosi, sem er 45 ára, hefur dæmt yfir 200 leiki í bæði kvenna- og karlabolta og var fyrsti Ítalinn til að dæma úrslitaleik á HM kvenna árið 2019. Hún var einnig aðstoðardómari í Ofurbikar Evrópu þegar Liverpool vann Chelsea sama ár og hefur dæmt á Ólympíuleikunum 2016 og 2020.
Þrátt fyrir glæsilegan feril segir Nicolosi að útlit hennar hafi verið henni hindrun í karllægu umhverfi fótboltans. Í viðtali við Quotidiano Sportivo sagðist hún hafa fengið þau skilaboð frá yfirmönnum sínum að hún væri of áberandi.
„Eitt árið fékk ég ekki stöðuhækkun í Frakklandi vegna þess að ég var of sýnileg.. Það var á þeim tímapunkti sem ég hugsaði um að hætta. Ef það hefði verið vegna mistaka eða slæmrar frammistöðu, þá hefði ég skilið það en ekki þetta,“ sagði hún.
Hún rifjaði einnig upp hræðilega reynsluá Ítalíu: „Ég þurfti að loka mig inni í búningsklefa á meðan þjálfarar og stjórnendur hótuðu að drepa mig. Lögreglan þurfti að fylgja mér út.“
Nicolosi viðurkennir að bæði karlar og konur verði fyrir árásum í starfi sínu, en segist einnig hafa þurft að takast á við óviðeigandi nálganir frá leikmönnum. „Já, það hefur gerst,“ segir hún.
„En ég gaf aldrei eftir, og það er líklega ástæðan fyrir því að ferillinn tók svona langan tíma.“