Hann var úrskurðaður látinn í Bonne Terre-fangelsinu klukkan 18:13 að staðartíma eftir að banvænni lyfjablöndu var sprautað í hann.
Lance var ákærður fyrir að bana lögreglumanninum Carl Dewayne Graham Jr., en hélt fram sakleysi sínu allt til enda.
Hann var dæmdur fyrir að bíða klukkustundum saman nærri heimili lögreglumannsins í bænum Van Buren í Missouri. Þegar Carl kom heim til sín að loknum vinnudegi gekk hann að honum vopnaður riffli og skammbyssu og skaut hann til bana.
Verknaðinn framdi Lance eftir að Graham hóf rannsókn á honum vegna manndráps af gáleysi í tengslum við umferðarslys sem Lance var talinn bera ábyrgð á. Besti vinur Lance lést í umræddu slysi á sínum tíma.
Í gærmorgun fékk hann heimsókn í fangelsið frá dætrum sínum og gömlum vini. Síðasta máltíð hans samanstóð af þremur pökkum af hafragrauti, hnetusmjöri, vatni og tveimur íþróttadrykkjum.
Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði síðustu áfrýjun hans í gærmorgun og ríkisstjóri Missouri, Mike Kehoe, synjaði beiðni hans um náðum. Í yfirlýsingu sagði Kehoe að ofbeldi gagnvart þeim sem hætta lífi sínu til að verja samfélagið verði aldrei liðið.
Í frétt AP kemur fram að verjendur Lance höfðu reynt að fá leyfi til DNA-rannsókna á gögnum sem fundust á vettvangi, en dómstólar höfnuðu beiðninni. Þeir héldu því fram að gögnin hefðu getað sýnt fram á sakleysi hans, þar sem engin bein sönnunargögn tengdu hann við morðið og vopnin sem notuð voru við morðið fundust aldrei.
Shockley er fyrsti fangi sem tekinn hefur verið af lífi í Missouri á þessu ári.