Arnari Gunnlaugssyni, landsliðsþjálfara Íslands var nokkuð heitt í hamsi þegar hann ræddi málin á fréttamannafundi í gær. Ísland mætir Frakklandi í kvöld.
Íslenska liðið tapaði 3-5 gegn Úkraínu á heimavelli á föstudag, frammistaða sem margir voru hrifnir af en mistökin varnarlega voru mörg og dýrkeypt.
„Fyrir mig er stærsti lærdómurinn að gera upp leikinn þannig að strákarnir haldi áfram að trúa að þeir séu frábærir. Því leikurinn var frábær, frábær. Ég veit að þetta er besti leikur sem Ísland hefur spilað með boltann frá stofnun íslenska landsliðsins, með boltann. Það þarf enginn að trúa mér, það þarf bara að kíkja á tölfræðina, þetta eru allt opinberar tölur,“ sagði Arnar á fundinum í gær.
Hann sagðist vera að tala um leik gegn hátt skrifuðu liði, ekki leiki gegn San Marínó eða Liechtenstein.
Arnar segir umfjöllun um leikinn hafa verið á þann veg að menn hafi verið að selja blöðin sín.
„Svo er leikurinn búinn og menn skrifa að þetta hafi verið ömurlegt októberkvöld, og allt það fram eftir götunum. Það er gott og blessað, þið þurfið að selja ykkar blöð og ég skil það vel.“