Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tilkynnti á landsþingi Miðflokksins sem fer fram í dag og á morgun, að hann hafi ákveðið að segja sig frá framboði til varaformanns flokksins. Er ljóst að tíðindin eru nokkuð óvænt, þar sem talið var að Bergþór ætti sætið víst, en hann segir tíma til kominn fyrir breytingar og að fá nýtt fólk til forystu.
„Kæru vinir, Rétt í þessu tilkynnti ég fulltrúum á landsþingi Miðflokksins að ég hafi ákveðið að segja mig frá framboði til varaformanns flokksins.
Nú er rétti tíminn til að fá nýtt fólk að forystusveitinni. Ég hef skynjað sterkt vaxandi vilja til að gera breytingar og fá nýtt fólk að borðinu í samtölum mínum við flokksmenn í vikunni. Það er styrkleikamerki og ég fagna því.
Miðflokkurinn er breiðfylking og hefur á að skipa fjölbreyttum og kraftmiklum hópi fólks. Sérstaklega hefur verið gaman að sjá ungliðahreyfinguna okkar eflast og þann stóra hóp ungs fólks sem leggur leið sína hingað á landsþingið.“
Í færslu sinni segist Bergþór þó alls ekki hættur, síður en svo:
„Ég vil því áfram leggja mitt af mörkum til að gefa nýju fólki tækifæri, með sína nálgun á stór verkefni, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.Ég fer þó ekki langt og verð blóðugur upp að öxlum í þinginu hér eftir sem hingað til að tala fyrir stefnu Miðflokksins en hef nú loks svigrúm til að sinna kjördæminu mínu og ennfrekar málum atvinnulífsins í atvinnuveganefnd. Ekki veitir af.
Takk fyrir stuðninginn. Áfram Miðflokkurinn – Áfram Ísland!“