Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson, þáttastjórnendur hins geysivinsæla hlaðvarps Chess After Dark, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is þetta skiptið.
Leifur vakti athygli í sumar þegar hann var boltasækir á leik KR í Bestu deildinni, sem er óvanalegt fyrir 27 ára gamlan mann. Var það refsing fyrir að hafa tapað í Fantasy-deild, eins og fjallað var um á Vísi.
„Ég hef heyrt ýmislegt í þessu, til dæmis að menn gangi í hús í sex klukkutíma að boða boðskap Votta Jehóva,“ sagði Leifur í þættinum um refsingar í Fantasy-leiknum almennt.
„Það var mitt hlutskipti að tapa, eins og oft áður, er alveg vonlaus í Fantasy. Ég hugsaði bara að það yrði veisla að vera boltasækir, planta mér bara á bak við einhvers staðar, það er enginn að pæla í boltasæki.
En nei, nei, það er stappfullur völlur og mér er plantað beint fyrir framan stúkuna. Þetta var ekkert eðlilega óþægilegt, að vera að rétta þessum fullorðnu mönnum boltann og ég var líka að skyggja á stúkuna.“
Magnús Jochum Pálsson, félagi Leifs, skrifaði svo um málið á Vísi. „Ég vandaði honum ekki kveðjurnar,“ sagði Leifur og hló.
Þátturinn í heild er í spilaranum.