Netverjar hafa gert grín að auglýsingu fimm samtaka um málþing um bókun 35 í Iðnó síðastliðinn þriðjudag. Bæði voru þar málfarsvillur sem og einn framsögumaðurinn var rangnefndur.
„Málþing haldinn“? spyr lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson í færslu á samfélagsmiðlum og birtir mynd af auglýsingunni.
Auglýsingin var á vegum fimm samtaka. Þau eru Félag Sjálfstæðismanna (skrifað með litlum staf í auglýsingu) um fullveldismál, Frelsi og fullveldi, Heimssýn, Ísafold og Herjan og Orkan Okkar.
Fundarstjóri var Guðni Ágústsson og framsögumenn Arnar Þór Jónsson, Haraldur Ólafsson, Sigríður Andersen og fleiri.
„Samkvæmt bókun 35 er orðið málþing hvorugkyns orð. Síðan er Guðni Ágústsson fv. ráðherra en ekki f.v. ráðherra. Ferlegt þegar innflytjendur eru að semja texta,“ segir Sveinn Andri í færslu sem hefur vakið kátínu margra netverja.
Benda fyrrverandi fjölmiðlakonurnar Snærós Sindradóttir og Karen Kjartansdóttir á að einn framsögumaðurinn, Erna Bjarnadóttir, er rangnefnd.
„Og hvers vegna er talað um Erlu Bjarnadóttur en þarna virðist mynd af Ernu Bjarnadóttur? Er þetta systir hennar?“ spyr Karen.
„Trúi ekki að ég hafi mist af þessu. Var að máta lök á Þvert á floKKKa rallý. Er upptaka til?“ spyr ráðgjafinn Sveinn Waage í hæðni.