Brotaþoli og ákærði, 19 og 20 ára, höfðu verið par í nokkra mánuði. Bæði bjuggu í foreldrahúsum en gistu oftar en ekki til skiptis á heimili hvors annars. Aðfaranótt 20. febrúar 2023 gistu þau heima hjá ákærða. Þau háttuðu, horfðu á sjónvarpið og fóru svo að sofa. Morguninn eftir tók brotaþoli eftir sæði í nærbuxum sínum og sendi ákærða skilaboð á Snapchat og spurði hvort hann hefði haft samfarir við hana á meðan hún svaf. Ákærði svaraði því játandi. Brotaþoli sleit í kjölfarið sambandinu og leitaði á Neyðarmóttöku. Fram kemur í málinu að brotaþoli átti sér þegar áfallasögu tengdum kynferðisbrotum og ákærði var meðvitaður um það.
Ákærði neitaði sök í málinu og sagði kynlífið hafa verið með fullu samþykki. Samþykkið hafi verið gefið til kynna með líkamlegri tjáningu. Hins vegar var framburður ákærða nokkuð á reiki því hann tók líka fram að hann hafi talið að ekki þyrfti að afla samþykkis hverju sinni þegar fólk ætti í ástarsambandi. Þau hafi verið par og ákærði talið að í því fælist samþykki til kynmaka, það er að ávallt lægi fyrir gagnkvæmt samþykki milli para í föstu ástarsambandi. Einnig hélt hann því fram að í september 2022 hafi þau rætt ástundun kynlífs á meðan annað þeirra svæfi og verið sammála um að það væri í lagi, en brotaþoli kannaðist ekkert við slíkar samræður.
Eftir að brotið átti sér stað og brotaþoli tók eftir sæði í nærbuxum sínum sendi hún á kærastann sinn hvort hann hefði fellt til hennar sæði um nóttina: „did ypu cum in me while i was asleep“ og ákærði svaraði: „yes“. Hún spurði hann þó hvort honum þætti þetta í lagi og kom því á framfæri að hann hefði ekki haft samþykki fyrir kynmökunum og að sambandi þeirra væri lokið.
Dómari tók fram að það væri óumdeilt að ákærði og brotaþoli voru kærustupar og að samfarir hafi átt sér stað þessa nótt. Hins vegar sé umdeilt hvort samþykki hafi verið til staðar eða ekki, og tók dómari sérstaklega fram að samþykkja þurfi kynlíf í hvert sinn.
„Er engum blöðum um það að fletta að slíkt samþykki brotaþola afmarkast við það tiltekna samræði sem hér um ræðir og að ákærða stoði það ekki að bera fyrir sig meint fyrir fram gefið samþykki brotaþola eða þögult allsherjarsamþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum í parasambandi, óháð því hvort brotaþoli væri vakandi eða sofandi á meðan.“
Brotaþoli hafi verið stöðug og skýr og framburður hennar trúverðugur með stoð í gögnum á borð við samtalið á Snapchat og vætti þeirra sem brotaþoli sagði frá brotinu eftir að það átti sér stað. Framburður ákærða hafi verið meira á reiki og fengi ekki sömu stoð í gögnum málsins. Taldi dómari það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi léttu rúmi liggja þó brotaþoli væri sofandi og hann nauðgað henni í skilningi 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa við hana samræði þar sem hún lá sofandi í rúmi ákærða og notfærði sér það að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga.
Ákærði var með hreina sakaskrá og var ungur að aldri. Dómari horfði til þess við refsiákvörðun sem og til þess að útgáfa ákæru dróst á langinn án þess að ákærða yrði um kennt. Hins vegar var horft til þess að hann misnotaði traust sem ríkja á í parasambandi og braut með freklegum hætti gegn kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti brotaþola, meðvitaður um fyrri áföll tengd kynmökum og óvilja hennar. Dómari tók fram:
„Þótt háttsemi ákærða verði eftir atvikum skýrð með ranghugmyndum hans um kynlíf í parasamböndum var brotavilji fyrir hendi.“
Hæfileg refsing þótti fangelsi í tvö ár og sex mánuði óskilorðsbundið. Eins var ákærða gert að greiða brotaþola miskabætur upp á 2,5 milljónir.
Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttar var dómurinn sagður hafa fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hið rétta er að dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. Fréttin hefur því verið leiðrétt og biðst blaðamaður velvirðingar á mistökunum.