Athafnamaðurinn Reynir Bergmann Reynisson er óðum að ná fyrri styrk eftir að hafa fengið hjartastopp í lok ágústmánaðar.
Reynir, sem nýtur mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum, lá um tíma þungt haldinn á gjörgæslu.Hann var þó farinn að reita af sér brandaranna um tveimur dögum síðar en svo kom bakslag sem varð til þess að hann var aftur svæfður til að leyfa líkamanum að jafna sig.
Á samfélagsmiðlum er Reynir þekktur fyrir það að láta nánast allt flakka og þrátt fyrir að hann hafi verið frekar ringlaður eftir þessa erfiðu reynslu var hann fljótlega farinn að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með af sjúkrabeðinu á spítalanum og illu heilli, svara skilaboðum þeirra.
Reynir greinir frá því í skemmilegri færslu á samfélagsmiðlum að síðustu dagar hafi farið í það að biðja vini, vandamenn og fylgjendur afsökunar á skilaboðum sem hann sendi frá sér á meðan hann lá á spítalanum.
„Ég var í raun algjörlega út úr heiminum og fjölskyldan vissi ekki í einhverja 19 daga hvort ég myndi í raun ná mér. Ég blaðraði bara samhengislaust og vissi ekkert hvar ég var staddur,“ segir Reynir.
Þá hafi hann verið ansi illskeyttur í skilaboðum til fólks og hraunað yfir allt og allt. Meðal annars kallaði hann blaðamann sem falaðist eftir viðtali „óttalegan brundhaus“ og konu sem tengist honum nánum böndum „helvítis túrkellingu“ í einkaskilaboðum.
„Þetta var ekki ég,“ segir Reynir brosandi í færslunni. Hann hafi verið iðinn við að ausa fúkyrðum við þá sem sendu batakveðjur allt þar til hans nánustu gripu inn í og tóku blessunarlegu af honum öll tæki.
Þegar hann hafði jafnað sig að mestu, eftir tæpar þrjár vikur frá því að hjartastoppið reið yfir, hafi hann hafist handa við senda afsökunarbeiðni á allmarga. Það hafi verið ærið verkefni og hann því sent áðurnefnda færslu frá sér í von um að afsökunarbeiðnin næði til sem flestra.
Þá segir Reynir að í baksýnisspeglinum hafi hann verið farinn að sýna af sér einkennilega hegðun í aðdraganda hjartastoppsins sem kannski hefði getað gefið vísbendingu um að ekki var allt með felldu. Að auki var hann mjög andstuttur og lystarlaus í kvöldverðaboði á heimili sínu, kvöldið áður en hjartastoppið reið yfir.