Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur orðið við kröfu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að herða reglur í starfsleyfi bálstofunnar í Fossvogi og að láta leyfið gilda aðeins í eitt ár. Nágrannar bálstofunnar hafa kvartað mjög undan mengun frá bálstofunni en starfsemi hennar verður þó með óbreyttum hætti á meðan kæran er til meðferðar.
Um er að ræða einu líkbrennslu landsins en komið hefur fram að tækjakosturinn uppfyllir ekki nútíma kröfur um mengunarvarnir. Til stendur að byggja nýja líkbrennslu með betri búnaði í Gufunesi.
Íbúar og nemendur og starfsfólk leikskóla og grunnskóla í næsta nágrenni bálstofunnar í Fossvogi hafa kvartað yfir bæði svörtum reyk frá henni sem og að sót frá stofunni berist inn um glugga.
Í ágúst síðastliðnum nýtti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sér heimild til að endurskoða starfsleyfið og ákvað að það ætti aðeins að gilda í eitt ár. Samkvæmt nýja starfsleyfinu er óheimilt að brenna við ákveðnar veðuraðstæður, til dæmis í logni eða mjög hægum vindi þegar dreifing reyks er lítil. Einnig verður brennsludögum fækkað eftir sex mánuði úr fimm á viku í fjóra og aðeins má brenna á virkum dögum.
Þá eru í starfsleyfinu bálfarir aðeins heimilar frá klukkan 17:30 til 6:30, þó aldrei meira en átta klukkustundir samfellt innan þess tíma.
Þessi hertu skilyrði sættu Kirkjugarðarnir sig ekki við og lögðu fram kæru til nefndarinnar fyrir um 10 dögum og kröfðust um leið að réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðiseftirlitsins yrði frestað á meðan kæran væri til meðferðar.
Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að bálstofan, sem hefur verið í rekstri frá 1948, hafi árið 2021 fengið endurnýjað starfsleyfi sem átti að gilda til 2033. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, í október 2024, var Kirkjugörðunum hins vegar tilkynnt um að starfsleyfið yrði tekið til endurskoðunar með vísan til ófullnægjandi mengunarvarnarbúnaðar og aukins ónæðis af völdum reykmengunar. Í kjölfarið áttu þessir aðilar í samskiptum en nýja starfsleyfið var síðan eins og áður segir gefið út í ágúst síðastliðnum.
Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma telja þessar breytingar á starfsleyfinu hvorki hafa byggst á málefnalegum sjónarmiðum eða fullnægjandi grundvelli, né hafi verið gætt meðalhófs. Um sé að ræða einu bálstofu landsins en brennsla sé annar af þeim kostum sem heimilt sé að nýta við meðferð líkamsleifa látinna einstaklinga. Samkvæmt lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu beri að virða óskir fólks sem vilji láta brenna sig eftir andlátið. Ríkinu beri því skylda til að tryggja aðgengi að þessari þjónustu sem gegni viðkvæmu og mikilvægu almannahlutverki og sé nátengd heilbrigðiskerfinu og almannaöryggi. Nýju starfsleyfisskilyrðin hafi þegar leitt til mikillar skerðingar og stöðvunar á einu bálstofu landsins sem hafi í för með sér ófyrirséða röskun á grundvallarþjónustu. Slíkt ástand skapi alvarlegt ástand fyrir líkhús og heilbrigðisstofnanir og hafi frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar því verulega þýðingu fyrir starfsemina.
Gamla starfsleyfið skapi enga hættu fyrir almenning þar sem gripið hafi verið til mótvægisaðgerða. Þar sem breytt skilyrði væru ný og íþyngjandi væri réttmætt að fresta gildistöku þeirra þar til endanlega hafi verið skorið úr um lögmæti þeirra.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur taldi í sínum andsvörum skilyrði fyrir því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar þess ekki vera fyrir hendi og því ætti bálstofan strax að byrja að starfa samkvæmt hertum skilyrðum nýja starfsleyfisins þótt ákvörðunin hafi verið kærð.
Eftirlitið sagði bálstofuna ekki uppfylla kröfur um mengunarvarnir. Mikilvægir almannahagsmunir væru í húfi en á síðustu árum hafi starfsemin aukist verulega með tilheyrandi auknum áhrifum af völdum mengunar. Það hafi valdið íbúum og nemendum og starfsmönnum skóla í nágrenninu ónæði en um sé að ræða leikskóla og sérskóla fyrir fötluð börn. Ekki sé hægt að bæta við hreinsibúnaði fyrir útblástur bálstofunnar því slíkur búnaður kæmi í veg fyrir eðlilega brennsluvirkni ofnanna, sem sé jafnframt ein af meginástæðum þess að starfsleyfið hefði verið tekið til endurskoðunar.
Heilbrigðiseftirlitið sagði að Kirkjugarðarnir gætu ekki búist við því að bálstofan gæti starfað samkvæmt gamla starfsleyfinu á meðan kæran væri til meðferðar. Kvörtunum hafi fjölgað og það hafi ekki breyst þótt kröfur um úrbætur hafi verið gerðar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála minnir í sinni niðurstöðu á að almennt fresti kæra til hennar ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvarðana nema veigamiklar ástæður liggi að baki.
Nefndin segir ljóst að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta og hafi auk þess fært rök fyrir að fallast beri á kröfu um frestun réttaráhrifa vegna almannahagsmuna þar sem hin nýju starfsleyfisskilyrði leiði til skerðingar á starfsemi einu bálstofu landsins. Þá hafi Kirkjugarðarnir bent á að hin nýju starfsleyfisskilyrði geti í ákveðnum aðstæðum leitt til aukinna neikvæðra umhverfisáhrifa og að fyrirhugað sé að leysa úr þeim kröfum heilbrigðiseftirlitsins að búnaður sé í samræmi við bestu fáanlegu tækni með flutningi í nýjar starfsstöðvar á næstu mánuðum. Hvort þar sé átt við nýju bálstofuna í Gufunesi er ekki skýrt tekið fram.
Nefndin vill einnig meina að þrátt fyrir að bálstofan sé nálægt íbúðarbyggð og skólum verði ekki talið að mögulegir hagsmunir íbúa og annarra, um að hið nýja starfsleyfi taki strax gildi, vegi þyngra en hagsmunir Kirkjugarðanna af því að þurfa ekki að svo stöddu að ráðast í aðgerðir til að fara eftir nýja starfsleyfinu.
Gildistöku nýja starfsleyfisins, með hertum skilyrðum um starfsemi bálstofunnar, er því frestað á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.