Auglýsingastofan Sahara og Olís hafa verið tilnefnd til hinna eftirsóttu European Paid Media Awards 2025 fyrir herferðina Sumarleikur Olís 2024. Í tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að herferðin hafi verið tilnefnd í tveimur flokkum: Paid Media Campaign of the Year og Paid Social Campaign of the Year, fyrir það sem kallað er „Engaging Gamification for Brand Loyalty“ á vefsíðu verðlaunanna. Sumarleikurinn hefur enn fremur hlotið tvær tilnefningar hjá hinum virtu Global Digital Excellence Awards í sambærilegum flokkum og á sömu forsendum.
Sumarleikurinn stóð yfir frá 14. júní til 21. ágúst og var markhópurinn fólk á aldrinum 18–65+ um allt land. Aðalleikurinn var lukkuhjól sem þátttakendur gátu snúið daglega og átt von á að hreppa einhvern af fjölmörgum skemmtilegum vinningum sem lukkuhjólið hafði að geyma. Playable var valið sem vettvangur fyrir leikinn og hann var kynntur með blönduðu markaðsefni á bæði innlendum og erlendum miðlum. Leikurinn fékk yfir 260 þúsund skráningar, sem verður að teljast frábær árangur, og þess má einnig geta að leitað var að „Sumarleik Olís“ á Google meira en 10 þúsund sinnum á tímabilinu.
„Markmiðið með herferðinni var að skapa virðisaukandi upplifun fyrir viðskiptavini og nýta til þess „gamification“ í markaðsstarfinu. Með þessari nálgun erum við jafnframt að styðja við þá langtímastefnu félagsins að styrkja í sífellu tengingu viðskiptavina við vörumerkið og veita þeim meira en aðeins hefðbundna þjónustu,“ er haft eftir Þyrí Dröfn Konráðsdóttur, markaðsstjóra Olís.
Þá segir Eva Þorsteinsdóttir, viðskiptastjóri og partner hjá Sahara: „Hlutverk okkar er að móta og samþætta markaðsaðgerðir, við skoðum allar upplýsingar og í kjölfarið rýnum við gögnin og nýtum þau til að dýpka skilning okkar á viðskiptavinum. Þetta ferli gerir okkur kleift að hámarka áhrif herferða, efla samskipti við viðskiptavini og tryggja að við bjóðum þeim viðeigandi tilboð og veitum upplýsingar á réttum tíma, á sem markvissastan hátt. Með því að nota þessa nálgun, viðhalda stöðugri endurgjöf og læra af fyrri herferðum, þá getum við stöðugt verið að bæta hvernig við nálgumst og þjónustum viðskiptavinina.”