Hvatinn til að gera betur er veikur hjá hinu opinbera. Rammasetning ríkisútgjalda, sem felst í því að hvert ráðuneyti fær tiltekna fjárhæð í sinn málaflokk og ræður því síðan sjálft hvernig þeim fjármunum er forgangsraðað, er tilraun til að byggja öflugri jákvæða hvata hjá hinu opinbera. Þetta er ekkert nýtt heldur byrjaði þetta í fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar. Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Hægt er að hlusta á brot úr þættinum hér:
Daði Már Kristófersson-5
Í ráðherrapallborðinu á landsfundi Viðreisnar fékkst þú margar spurningar sem þú varðst að vísa frá þér að miklu leyti vegna þess að þó að þær snerust um fjárlagafrumvarpið þá er það alls ekki svo að fjármálaráðherra eða ráðuneyti hans sé með puttana í öllum fjárlagaliðum. Hvert fagráðuneyti hefur tiltekinn ramma og frjálsar hendur innan hans. Eins og þú orðaðir það má segja að hvert ráðuneyti sé í raun og veru fjármálaráðuneyti fyrir sinn málaflokk,
„Já, þetta er sko breyting sem er lögð til fyrir mjög löngu síðan. Og vinnan við hana byrjar fyrir aldamót. Ég held þetta hafi verið í ráðherratíð Friðriks Sophussonar …“
Ég man eftir þessu þegar ég var aðstoðarmaður í menntamálaráðuneytinu og Friðrik fjármálaráðherra, þá var talað á þessum nótum.
„Þetta er kallað rammasetning ríkisútgjalda. En alveg eins og þú bendir á, raunverulega birtist þetta þannig að fyrst tekurðu einhverja heildarköku, þú skiptir henni niður á milli ráðuneytanna, síðan er það raunverulega hvert ráðuneyti fyrir sig sem að dreifir henni á einstaka liði. Nú er ég ekki með þessu að hvetja til þess að fólk ráðist á samráðherra mína og firra mig ábyrgð. þetta er bara þetta er verklag sem er raunverulega miklu skynsamlegra. Það er á endanum þannig að yfirsýn yfir eðlilega forgangsröðun í heilbrigðismálum liggur ekki hjá fjármálaráðherra. Hún liggur í heilbrigðisráðuneytinu. Sama má segja um menntamál eða hvað sem er annað,“ segir Daði Már.
Sjálfur var hann stjórnandi hjá Háskóla Íslands í sjö ár. Hann segir að sé hvatinn til að gera betur er til þess að gera veikur. „Vegna þess að ef þú kemst af með minni peninga þá eru bara peningarnir teknir af þér, og við förum mjög sjaldan í gegnum einhverjar svona krísur sem gera það að verkum að við verðum að taka til hjá okkur. Þannig að það ferli sem er stundum kallað creative destruction, það er eiginlega ekki til hjá ríkinu og hvatinn til þess að gera betur er mjög veikur. Rammasetningin hjálpar okkur að skapa hvata til að reyna að gera betur, forgangsraða með nýjum hætti og reyna þá að þróa starfsemi ríkisins. Og ég held að sé alveg rosalega mikilvægt að við veikjum ekki þessa hvata. Þess vegna hef ég verið mjög mikill aðdáandi þessarar nálgunar sem við nefndum hér áðan að Friðrik Sophusson er nú örugglega einhvers konar upphafsmaður að þó að hún eigi sér örugglega lengri sögu. Við höfum haldið okkur mjög við hana í allri vinnu gagnvart fagráðuneytunum. Þetta gerir það þá líka að verkum að samstarf okkar með hinum fagráðuneytunum til þess að bæta rekstur, til dæmis með því að bæta útboði eða eitthvað svona, verður miklu auðveldara, vegna þess að ábatinn af því, ef hann er einhver, í lægri kostnaði skilar sér þá til þess fagsviðs í meira svigrúmi til að gera eitthvað nýtt.“