Á Íslandi búum við í samfélagi sem vill láta sjá sig sem réttlátt, jafnréttissinnað og mannúðlegt. Samt eru hundruðir barna og fullorðinna með fötlun eða langvarandi veikindi enn að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum eins og aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, húsnæði, samgöngum og þátttöku í menningu og samfélagi.
Átakið Já Takk, sem Góðvild og 4. vaktin standa að, hefur það skýra markmið að þrýsta á stjórnvöld og sveitarfélög að bregðast loksins við. Við segjum einfaldlega: Já takk við mannsæmandi lífsskilyrðum fyrir fatlað og langveikt fólk.
Það er óásættanlegt að börn þurfi að bíða mánuðum eða árum eftir stuðningi í skóla eða eftir talþjálfun. Það er óásættanlegt að foreldrar þurfi að brenna út og fara á örorku vegna skorts á úrræðum. Það er óásættanlegt að fullorðið fatlað fólk sé fast í kerfi sem tekur frá því frelsi, möguleika og lífsgæði sem flestir taka sem sjálfsögðum hlut.
Menntun, aðgengi og heilbrigðisþjónusta eiga ekki að vera orðin tóm í skýrslum eða á fundum. Það þarf að vera raunveruleg áætlun í gangi og einhver sem framkvæmir áætlunina. Við getum ekki lengur sætt okkur við að vera þjóð sem talar um mannréttindi en framkvæmir þau ekki í reynd.
Átakið Já Takk er ákall til stjórnvalda, sveitarfélaga, fagfólks og almennings. Átakið er líka hvatning til allra sem hafa upplifað kerfið á eigin skinni að deila sinni reynslu og áskorunum með myllumerkinu #játakk.
Við skulum saman sýna að samfélag sem stendur með þeim sem mest þurfa á því að halda er samfélag sem við öll viljum tilheyra.
Það er einfalt: Þegar við segjum Já takk, segjum við Já Takk við mannréttindum, Já Takk við mannlegri reisn og Já Takk við framtíð þar sem enginn er skilinn eftir.
Höfundur er framkvæmdastjóri Góðvildar