fbpx
Miðvikudagur 12.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Nína Richter skrifar: Lof is blænd – Arctic?

Eyjan
Föstudaginn 26. september 2025 06:00

Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um aldamótin var rekin hér á landi æðisleg sjónvarpsstöð sem hét Skjár einn. Á stöðinni kynntust landsmenn göldróttu systrunum í Charmed, húsmæðrum í Providence og síðast en ekki síst var stöðin vagga íslenska raunveruleikasjónvarpsins. Á svipuðum tíma dúkkaði upp stöðin Popptíví sem gat af sér Blö-gengið ef ég man rétt. Svo var einhver skammlíf Stöð þrjú þarna líka.

Þessi gósentíð íslenskra sjónvarpsstöðva var veisla fyrir unglinginn. Loksins var hægt að nálgast dagskrá um hábjartan dag án þess að vera með áskriftarstöðvar. RÚV börnin gátu loksins graðgað í sig rusli úr Vesturheimi án þess að þurfa að vingast við jafnaldra á fölskum forsendum til þess eins að horfa á endursýnda Nágranna í stað þess að fara út að leika – eins og einhver lúði.

Innlendir dagskrárliðir voru fastur punktur í þessari nýju sjónvarpstilveru og þar – á toppnum – tróndi stefnumótaþátturinn Djúpa laugin á Skjá einum. Íslendingar söfnuðust saman í pönkuðum sjónvarpsverum til þess að eiga mis-klúr samtöl fyrir framan slompaðan sjónvarpssal. Fólkið skellti sér á stefnumót á rómantískustu veitingahúsum landsins og gisti á framhjáhaldshótelum rétt utan við höfuðborgina, spreytanað og stífmálað með ódýrt vín í glösum. Þvílíkt sjónvarp.

Sökum fæðar landsmanna og stafrænnar þróunar (og mögulega af fleiri ástæðum sem ekki verða tíndar til hér) hefur þessi stefnumótaþátta-menning aldrei náð sömu hæðum og á gullaldarárum Djúpu laugarinnar.

Stefnumótaþættir hafa þó haldið vinsældum sínum erlendis þar sem samfélögin eru jú öllu stærri. Á Netflix má til dæmis nálgast raunveruleikaþætti sem heita Love is blind, en þeir þættir ganga á að verðandi pör spjalli í gegnum plastvegg í nokkrar vikur, ákveði síðan „blindandi“ hvort að þau vilji trúlofa sig. Ef þau vilja það, þá þiggja hjónaleysin bónorð í gegnum plastvegginn og hittast að lokum „í fyrsta sinn“ á einhverskonar dramatískum hápunkti. Þarna er útlitinu ætlað að vera aukaatriði, en auðvitað er leiðinlegt að vera ljótur í öllum aðstæðum og þessar aðstæður eru örugglega ekki undantekning.

Eftir að fólkið hefur loksins hist í kjötheimi, gefast þeim nokkrar vikur til þess að ákveða hvort að þau vilji ganga í heilagt hjónabandi með viðkomandi, í þess til gerðu heilögu myndveri. Hefur þessi formúla slegið í gegn og þættirnir, upphaflega amerískir, verið framleiddir í útgáfum á heimsvísu. Þar má sem dæmi nefna Love is blind Brazil, Love is blind Sweden og Love is blind Britain.

Ég hef mikið hugsað um þessa formúlu og hvernig hún gengi fyrir sig á Íslandi. Í fimmta hverju tilfelli myndi spjall í gegnum vegg enda á því að fólk áttaði sig á því að það væri mögulega skylt, hefði áður sofið saman eða væri tengt í gegnum vinnu, skóla eða félagsstörf „Haha, Jói ert þetta þú?,“ myndi fólk spyrja og fólkið í sófanum myndi orga úr hlátri. Þetta væri ekki vænlegt til vinnings. Við erum líklega allt of lítið samfélag til að geta átt okkar eigið Love is blind.

Þá er spurning hvort að við í ballarhafi tökum okkur ekki saman og sláum upp Love is blind Norðurslóða-útgáfu, þar sem Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar gætu parað sig saman í gegnum plastveggi. Jafnvel úr þorskroði.

Ef einhver á vegg úr þorskroði má hann alveg heyra í mér. Ég þekki nokkra framleiðendur sem gætu látið góða hluti gerast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið
EyjanFastir pennar
11.10.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríki Norður Kóreu

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríki Norður Kóreu
EyjanFastir pennar
11.10.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Næturgestur í Alþingishúsinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Næturgestur í Alþingishúsinu