Marga dreymir um að fá að ganga í raðir auðugustu stéttarinnar, milljarðamæringana sem tilheyra þessu eina prósenti sem situr á meirihluta auðsins í heiminum. Marga, en ekki alla. Fortune greinir frá einum milljarðamæringi sem kærði sig ekki um þann stimpil.
Stofnandi Patagonia, fyrirtækis sem selur útivistarfatnað, segir það hafa verið versta dag lífs síns að komast að því að hann væri kominn á lista Forbes tímaritsins yfir auðugustu menn heims árið 2017.
„Það bara virkilega fauk í mig,“ sagði Yvon Chouinard við tilefnið. „Ég er ekki með milljarða dala í bankanum mínum. Þú skilur, ég keyri ekki um á Lexus.“
Chouinard er mikill útivistamaður og stundaði klettaklifur grimmt. Áður en hann stofnaði fyrirtækið sitt bjó hann í bílnum sínum, keyrði um í náttúrunni til að klifra, hafði engar tekjur og lifði á kattamat og íkornum.
Hann segist aldrei hafa haft það að markmiði að verða moldríkur. Að vera milljarðamæringur sé ekkert afrek, heldur sé það merki um að fólk hafi afvegaleiðst í lífinu með því að taka þátt í að auka misskiptingu auðs í heiminum. Chouinard beindi því til starfsfólks síns að koma honum af Forbes-milljarðamæringalistanum. Það kom ekki til greina að selja fyrirtækið enda hefði Chouinard þá setið uppi með marga milljarða á bankareikningi sínum. Eins kom ekki til greina að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað.
„Ég ber enga virðingu fyrir hlutabréfamarkaðnum. Um leið og þú skráir fyrirtækið hefurðu misst stjórnina á fyrirtækinu og þarft að hámarka hagnað fyrir hluthafa. Þú missir alla stjórn og ert orðið eitt af þessum óábyrgu fyrirtækjum.“
Chouinard og fjölskylda hans ákváðu því árið 2022 að færa eignarhald Patagonia yfir á eignarhaldssjóð og komu á fót óhagnaðardrifnu félagi til að tryggja að 100 milljónum af gróða hvers árs yrði varið í að berjast gegn loftlagsbreytingum og til að verja óbyggt land.
„Vonandi mun þetta hafa þau áhrif að skapa nýja tegund af kapítalisma sem endar ekki með nokkrum ríkum einstaklingum og fullt af fátækum,“ sagði Chouinard í samtali við The New York Times árið 2022. „Við ætlum að gefa eins mikið og við getum til fólks sem er að vinna að því að bjarga plánetunni.“
Choinard er 86 ára gamall og sagði í samtali við National Geographic fyrr á árinu að hann hafi ekki stofnað Patagonia til að græða. Hann gerði það til að eiga í sig og á. Með því að færa eignarhald fyrirtækisins yfir í óhagnaðardrifin samtök sé hann í raun búinn að útnefna jörðina sjálfa sem eina hluthafann.
„Þegar þú þénar nóg til að eiga í þig og á, hvaða ástæðu hefurðu til að halda rekstrinum áfram? Er það út af ábyrgðinni sem þú berð á starfsfólkinu sem er enn þarna til að þéna eða er það út af tækifærinu til að láta gott af sér leiða? Við erum að láta gott af okkur leiða og gerum góða hluti með gróðanum okkar. Það er raunverulega ástæðan fyrir því að við höldum áfram. Þetta snýst ekki um egóið enda verð ég dauður eftir fáein ár.“
Choinard tekur fram að hann hafi fengið áfall þegar hann endaði á Forbes-listanum enda hefur hann aldrei séð sig sem auðmann. Hann langar bara að vera kúreki, keyra um á Toyota Corolla frá árinu 1987 og klæðast flannel-skyrtum. Hann segist nú fá um 7,5 milljónir á ári frá Patagonia en hann sé mun virkari í rekstrinum í dag heldur en fyrir eignatilfærsluna.
Hann tekur þó fram að áratugum saman hafi hann reynt að byggja rekstur sinn á þeirri hugmyndafræði að valda sem minnstum skaða. Fyrirtækið hans sé ekki sjálfbært þó að hann leggi áherslu á að framleiða fatnað sem endist. Engu að síður séu hráefnin sem Patagonia notar ekki endurnýtanleg. Því vill hann nota gróðann til að berjast fyrir náttúrunni. Hann segist sannfærður um að loftlagsbreytingar verði ekki stöðvaðar fyrr en fólk nær aftur að tengjast náttúrunni. Opinber hlutafélög muni aldrei kjósa sjálfbærni fram yfir gróða. Nú leggur hann áherslu á að styrkja grundvöll Patagonia svo áfram verði hægt að berjast gegn loftlagsbreytingum eftir hans dag. Hann er með metnaðarfullt markmið sem honum mun ekki endast lífið til að sjá raungerast – að bjarga plánetunni.