Emmessís hefur ráðið Ara Friðfinnsson sem markaðsstjóra fyrirtækisins. Ari mun leiða uppbyggingu og þróun vörumerkja félagsins á tímum umbreytinga, en Emmessís flytur í nýjar höfuðstöðvar í Grafarvogi í lok næsta árs, eins og kemur fram í tilkynningu.
Ari lauk BA-námi í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 og meistaranámi í markaðsfræði frá TBS-háskólanum í Barcelona árið 2022. Að námi loknu hóf hann störf hjá Artasan sem vörumerkjastjóri þar sem hann hefur verið um þriggja ára skeið.
„Það fylgir því mikil tilhlökkun að ganga til liðs við Emmessís. Fyrirtækið hefur fylgt Íslendingum í 65 ár og framleiðsluvörur þess eru órjúfanlegur hluti af menningu og hversdegi fólks. Ég hlakka til að byggja ofan á sterka arfleifð vörumerkisins og finna nýjar leiðir til að ná til viðskiptavina,“ segir Ari.
„Við erum afar ánægð að fá Ara til liðs við okkur. Hann kemur inn með ferska sýn, alþjóðlega menntun og reynslu af vörumerkjastjórnun sem mun styrkja Emmessís enn frekar. Ari hefur sýnt fram á að hann býr yfir mikilvægri hæfni til að sameina stefnu og skapandi hugsun,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Emmessís.