Tomas Lindberg, söngvari sænsku dauðarokkssveitarinnar At the Gates er látinn, 52 ára að aldri. Hljómsveitin er ein sú áhrifamesta í sinni grein og heimsótti Ísland fyrir rúmum áratug síðan.
Rokkmiðillinn Metal Addicts greinir frá þessu.
Lindberg greindi frá því í ágúst síðastliðnum að hann væri að berjast við ágengt krabbamein í munni og gómi. Hann fékk greininguna fyrir tveimur árum síðan. Hann gekkst undir stóra skurðaðgerð þar sem stór hluti efri góms var fjarlægður. Síðan tók við mánaðalöng geislameðferð.
„Í byrjun árs 2025 fundu þeir leifar krabbameinsins sem er ekki hægt að fjarlægja með aðgerð eða geislameðferð. Við sjáum hvað næsta skref verður, sennilega einhvers konar lyfjameðferð, til að halda krabbameininu í skefjum,“ sagði Lindberg sem var þá vongóður um bata og staðráðinn í að halda áfram að gera tónlist.
Lindberg var stofnmeðlimur í At the Gates árið 1990, hljómsveit sem var einn helsti brautryðjandi í hinu svokallað Gautaborgarrokki, eða melódísku dauðarokki. Það er ásamt sveitum á borð við In Flames, Dark Tranquility og Arch Enemy.
Hljómsveitin hefur verið starfandi með hléum allar götur síðan en hápunkturinn er vafalaust útgáfa plötunnar Slaughter of the Soul árið 1995 sem talið er tímamótaverk í dauðarokki.
At the Gates komu til Íslands árið 2014 og léku á tónlistarhátíðinni Eistnaflugi í Egilsbúð í Neskaupstað.