Feðgarnir Harry prins og Karl konungur áttu endurfundi í síðustu viku er þeir hittust í fyrsta sinn í rúmt ár. Harry virtist kátur eftir fundinn en feðgarnir ræddust við í tæpa klukkustund. Þótti þetta góð vísbending um að samskipti þeirra væru á réttri leið.
Í framhaldinu birtust fréttir þar sem fram kom að Karl konungur hafi látið yngri son sinn lofa að ræða ekki við fjölmiðla um það sem þeim fór á milli, en stirt samband þeirra má meðal annars rekja til tíðra fjölmiðlaviðtala og æviminninga þar sem Harry hefur hjólað í fjölskyldu sína.
Sjá einnig: Endurfundir Harry og Karls helmingi lengri en þeir síðustu – Lét falleg orð falla um föður sinn
Því hafi það verið köld tuska í andlit konungsfjölskyldunnar þegar The Guardian birti í gær viðtal við Harry þar sem hann sagðist hafa hreina samvisku og að æviminningar hans og fræg fjölmiðlaviðtöl hafi verið nauðsynlegur liður í uppgjöri hans við fortíðina. Hann hafi þurft að koma sannleikanum á framfæri til að leiðrétta söguna því án sannleikans sé engin leið fyrir hann til að sættast við fjölskyldu sína.
Konungsfjölskyldan mun vera vonsvikin, reið og sár yfir þessu viðtali. Samkvæmt heimildarmönnum úr höllinni er stærsti vandi Harrys sá að hann kunni ekki að halda kjafti og þannig endi hann alltaf með því að grafa sig ofan í dýpri og dýpri holu.
Telja heimildarmenn ljóst að sættir séu ekki framundan eftir þessa framkomu. Fjölskylda Harrys hafi rétt fram sáttarhönd en prinsinn hafi nú slegið á hana.
„Fjölskyldan er brjáluð – þau hleyptu honum aftur inn og svona endurgalt hann þeim.“
Einn heimildarmaður telur líklegt að Harry muni halda því fram að The Guardian hafi haft rangt eftir honum. Það sé afsökun sem hann hafi notað áður en fjölskylda hans sé ekki lengur að kaupa hana.
„Við vitum hvað hann sagði. Sorglegi sannleikurinn er sá að Harry kann ekki að þegja og það er að kosta hann fjölskylduna.“