Hundurinn minn á gúmmítening, nagdót með litlu hólfi. Hægt er að smella gotteríi í hólfið og takist að hrista það með réttum hætti, þá dettur gotteríið út um lítið gat. Hundurinn minn rúllar þessum gúmmíteningi út um öll gólf þangað til allt gotteríið er uppurið og nagdótið situr sundurslefað úti í horni. Nákvæmlega svona hegða ég mér í kringum reels á Instagram og Tiktok – og mér finnst það niðurlægjandi upplifun.
Ólíkt hundinum er ég hins vegar krafin um skoðun á gotteríinu. Fyrir hádegi hef ég kynnt mér þrjár mismunandi nálganir á stjórnun fiskveiða við Færeyjar og eftir hádegi er það norrænn ráðherra með ljóta klippingu sem hefur skitið á sig með illa orðaðri yfirlýsingu. Ég „læka“ við staðhæfingar sem rúlla fram hjá mér á ógnarhraða, með einbeittan brotavilja í hálfvitavélinni. Ógeðslega sammála að klippingin hafi verið ljót. Sjitt hvað hann er glataður að hafa sagt þetta. Næsta mál.
Enginn kynnir sér neitt almennilega. Rannsóknarvinna fer fram með einu „prompti“ á ChatGPT. Sérfræðingar eru leiðinlegir, hresst fólk er í morgunþáttum og fólk með undarlegar skoðanir er gott sjónvarp.
Í haust sigldi ég inn í þriðja árið mitt við lagadeild og ákvað að loka á samfélagsmiðla. Að minnsta kosti mesta óþarfann, þ.e. Instagram og Tiktok.
Síðan þá hafa Ísraelar ráðist inn í Katar, Rússar inn í Pólland og pólitískt morð hefur verið framið í Bandaríkjunum. Ég ætla ekki að gera ráð fyrir því að vera mín á samfélagsmiðlum tengist þessum atburðum með beinum hætti. Ég átta mig á því að notkun mín á smáforritum raskar ekki þjóðaréttarlegu jafnvægi.
Hvað finnst þér um morðið á þessum bandaríska íhaldssama aktívista?
Mér finnst bara það nákvæmlega það sama um morð á bandarískum aktívistum og mér finnst um morð á fólki almennt. Ég er á móti morðum. Öllum morðum.
Ég hef ekki þörf til að senda frá mér hraðsoðna yfirlýsingu eða búa til kontent um afstöðu mína til morðsins. Ég efa líka stórlega að þeir fjölmörgu sem gera svoleiðis séu að eyða meira en mínútu í að setja sig inn í málavexti en þeir finna samt sem áður FOMO (hræðslu við að missa af) séu þeir ekki hluti af stafrænu fuglabjargi sem við köllum „umræðuna.“
Ég óska þess að fólk beri ábyrgð á því sem það segir. Ég óska þess að fólk velti fyrir sér þörfinni á því að taka afstöðu í vissum málefnum, eða gera ákveðna hluti af umtalsefni. Ég vil líka að við hægjum á okkur og spyrjum: Hvernig veistu þetta? Hver sagði þér þetta? Hvaðan koma þær upplýsingar? Af hverju hér, af hverju núna? Ruglum ekki saman tjáningarfrelsi og erindi.
Raunveruleg umræða um boðskap bandaríska íhaldssama aktívistans, hugmyndafræði sem hann aðhyllist og áhrif hans á skoðanir fólks á vesturlöndum er annars eðlis en að tala um að hann sé ógeð eða snillingur. Stærstur hluti umræðunnar snýst um að skipa sér í lið. Ertu með eða á móti. Menningarlegt kapítal í rauða eða bláa liðinu. Ertu með eða á móti byssum, peningum, málfrelsi, mannréttindum? Segðu mér frá því í ellefu orðum og höldum svo áfram með daginn.
Þögn er ekki það sama og samþykki. Stundum er hún bara tími til að hugsa málið og lesa sér til. Ég mæli með að hætta að horfa á reels. Ég er orðin leiðinlegri en betur lesin.