Talið er að hundruð þúsunda mynda hafi ratað inn í hópinn og deildu meðlimir myndir af mökum sínum og ókunnugum konum. Hópnum var lokað þann 20. ágúst síðastliðinn eftir að 2.000 kærur bárust lögreglu og Meta.
Myndir af konunum höfðu ratað í hópinn og í mörgum tilfellum höfðu þær ekki hugmynd um að myndir hefðu verið teknar af þeim. Voru dæmi um að konurnar væru í sólbaði, í mátunarklefum eða í kynlífsathöfnum.
Meðlimir skiptust einnig á upplýsingum um aldur, hæð og þyngd kvennanna og skrifuðu miður geðslegar athugasemdir við myndirnar.
Það var rithöfundurinn Caroline Capria sem fór fyrir hópnum sem barðist fyrir því að hópnum yrði lokað.
Barbara Strappato, aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni í Róm, sagði við fjölmiðla að hún hefði „aldrei séð jafn truflandi orðalag í hópi á samfélagsmiðlum áður“.