„Við fyrstu sýn hefði mátt halda að myndband sem Juliana Terlizzi fann í fartölvunni sinni fyrir fimm árum sýndi innilega stund á milli tveggja ástfanginna einstaklinga. Það var tekið af fyrrverandi kærasta hennar, Hubert Greliak, og á því sést hann brosa í myndavélina á meðan Juliana liggur undir sæng í rúminu fyrir aftan hann, greinilega sofandi. En það tekur ekki nema nokkrar sekúndur að átta sig á því að það er ekkert rómantískt við þetta myndband.“
Svona hefst átakanleg frásögn sem birtist á vef Mail Online þar sem Juliana Terlizzi lýsir hrollvekjandi reynslu sinni. Í myndbandinu sem vísað er í hér að framan var Juliana nefnilega ekki sofandi heldur meðvitundarlaus. Hubert stundaði það að byrla henni ólyfjan og brjóta svo á henni kynferðislega meðan hún var rænulaus. Þetta tók hann svo upp á myndband.
Í kvöld er frumsýndur heimildaþáttur um málið á Channel 5 í Bretlandi, My Boyfriend, My Rapist: The Secret Footage.
„Ég átti bágt með að trúa því sem ég sá fyrir framan mig. Það versta var að ég hafði ekki hugmynd um að þetta hafði gerst,“ segir hún í umfjöllun Mail Online. Martröðinni var ekki lokið þarna þó að hún hefði umsvifalaust lagt fram kæru hjá lögreglu.
Nokkrum mánuðum síðar fann hún fleiri sambærileg myndbönd á tölvunni sinni sem fóru framhjá rannsóknarlögreglumönnum þegar þeir tóku tölvuna til skoðunar. Á þeim hreinlega stærði hann sig af því að hafa nauðgað Juliönu.
Þau bjuggu saman um skeið árin 2019 og 2020 og segist Juliana ekki hafa hugmynd um hversu oft henni var nauðgað. Þau kynntust fyrst á næturklúbbi árið 2018 og segir Juliana að henni hafi gengið allt í haginn þar til þau kynntust. „Ég elskaði líf mitt og fannst ég standa á toppnum – svo hitti ég þennan hræðilega mann sem eyðilagði allt.“
Þó að hún hafi tilkynnt málið til lögreglu og lagt fram kæru gat Hubert um frjálst höfuð strokið meðan að mál hans velktist um í breska dómskerfinu. „Ég þorði ekki að fara út úr íbúðinni minni í marga mánuði. Þessi maður hafði sýnt að hann var hættulegur konum, en samt var hann frjáls tveimur árum eftir að ég kærði hann. Hann var meira að segja með virkan reikning á Tinder,“ segir hún.
Það var svo loks árið 2022 að Hubert var dæmdur í fangelsi og fékk hann þrettán og hálfs árs dóm. Hubert hafði frá byrjun sýnt merki um stjórnsemi og einangraði hann Juliönu frá vinum. Hann sannfærði hana um að hún væri eina manneskjan sem gæti „bjargað“ honum.
Juliana segir að hún hafi strax ákveðið að segja sögu sína opinberlega, ekki síst til að varpa ljósi á hversu erfitt það getur verið að fá kynferðisbrotamenn dæmda en líka til að sýna öðrum konum stuðning.
„Ég vissi strax að ég vildi afsala mér nafnleynd því skömmin var ekki mín,“ segir hún. „Ég gerði ekki neitt rangt og ég lít þannig á að ef maður talar ekki um hlutina ná sárin ekki að gróa. Ég fann það sterkt að ég ætlaði ekki að skammast mín heldur nýta mína reynslu til að hjálpa öðrum þolendum,“ segir hún en í dag er hún virk í baráttunni fyrir réttindum þolenda kynferðisofbeldis.