„Mér fannst við spila ágætis leik. Þeir skora þetta undramark og verja svo markið með öllu sem þeir eiga. Það skilaði þessu í dag,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Vals við RÚV eftir 1-0 tap gegn Vestra í úrslitaleik bikarsins í dag.
Jeppe Pedersen skoraði ótrúlegt mark eins og Hólmar segir. Bróðir hans er Patrick Pedersen, markavél Vals. Hann var borinn af velli í dag og litu meiðslin alls ekki vel út.
„Við erum búnir að fá fregnir af því að hann sé illa meiddur. Það er mikil blóðtaka fyrir okkur,“ sagði Hólmar.
Patrick er markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi. Hann hefur verið frábær fyrir Val í sumar og þetta er gríðarlegt áfall fyrir liðið í toppbaráttunni.