fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Eyjan

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum

Eyjan
Sunnudaginn 27. júlí 2025 16:30

Rósabað í höllu hins glysgjarna keisara Heliogabalusar (204–222). Olíumálverk ensk-hollenska listamannsins Sir Lawrence Alma-Tadema frá árinu 1888. Myndin er nú í eigu spænska kaupsýslumannsins Pérez Simón og var síðast til sýnis í ráðhúsi Madridarborgar í vetur sem leið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heliogabalus Rómarkeisari er þekktur í sögunni fyrir glysgirni sína. Er hann hélt innreið í Rómaborg 219 var hann albúinn klæðum af gullsaumuðu purpurasilki, skreyttur gullhringum og perlufestum og bar gimsteinakórónu á höfði. Og þannig var hann jafnan búinn að hætti austurlenskra einvalda, alsettur demöntum; allur búnaður keisarahallarinnar gullsleginn og fæðan sjaldséð hnossgæti.

En keisararnir urðu ekki ellidauðir þau árin og lífvörðurinn sat á svikráðum. Raunar hafði spámaður tjáð Heliogabalusi að hann myndi hljóta válegan dauðdaga og hinn mikli skartmaður vildi mæta örlögum sínum af reisn þegar þar að kæmi. Hann hafði því til reiðu sverð gulli slegið, eitur í hylkjum skreyttu safírum og smarögðum og snörur úr purpurasilki. En allt kom fyrir ekki. Keisarinn var veginn á kamrinum þar sem hann faldist og líkinu varpað í Tíber. Því skolaði upp í hinni mikilfenglegu skólpveitu Rómar, Cloaca Maxima. Glyskeisarinn varð aðeins átján vetra.

Þegar þarna var komið sögu var stjórnarfarið í Róm orðið einræði að austurlenskri fyrirmynd þar sem keisarinn var tilbeðinn sem guð í mannsmynd, en sjálfur var Heliogabalus hinn ungi sýrlenskur að ætt. Rómarfriðurinn, Pax Romana, hafði runnið sitt skeið og orðið æ sjaldgæfara að farsælir afburðarmenn stýrðu heimsríkinu, menn á borð við þá Hadríanus og Markús Árelíus.

Að draga lærdóma af sögunni

Hnignun og fall Rómaveldis hefur verið sagnfræðingum hugleikið um aldir og sex binda verk Edwards Gibbon um efnið er eitthvert frægasta sagnfræðirit sem um getur. Þegar ég lærði sagnfræði á sínum tíma var okkur innrætt að forðast kenningar sem flyttu einfaldar skýringar — sögulegir viðburðir ættu sér jafnan margþættar orsakir. Margt í leiftrandi söguskýringum Gibbons þykir ekki góð latína á okkar dögum en samt sem áður falla ýmsir sagnfræðingar samtímans í þá gildru að draga of viðurhlutamiklar ályktanir af afmörkuðu orsakasamhengi, láta þá þætti liggja á milli hluta sem ekki henta þeirri sögukenningu sem viðkomandi fræðimaður aðhyllist.

Slíkar einfaldanir á flóknum veruleika verða síðan þeim mun bjálfalegri þegar stjórnmálamenn taka sér þær í munn. Fátt mun þó verða stjórmálamanni að meira gagni en haldgóð söguþekking. Sagan er ótæmandi lærdómsbrunnur.

Lærdómur um ofstjórn

Ég minntist á það að framan að veldissól Rómverja var tekin að hníga til viðar þegar komið var fram á þriðju öldina en undir lok aldarinnar var efnahagsástand hins mikla heimsveldis orðið svo bágborið að Díócletíanus keisari brá á það ráð að hefja umfangsmikinn áætlunarbúskap í stað þess að treysta á hinn frjálsa markað. Höft voru lögð á inn- og útflutning, komið á opinberri stjórn heilu iðngreinanna og verslun sömuleiðis látin lúta forsjá ríkisvaldsins. Hafnar voru gríðarmiklar opinberar framkvæmdir til að létta á atvinnuleysi og ríkisvaldið varð helsti vinnuveitandi. Til að stemma stigu við síhækkandi verðbólgu gaf keisarinn út tilskipun árið 301 um lögboðið hámarksverð. Sú tilraun mistókst fullkomlega og afleiðingin varð alvarlegur vöruskortur.

Áætlunarbúskapurinn reyndist svo dýr að Lucíus Lactantíus, ráðgjafi Constantínusar I, tók svo til orða snemma á fjórðu öld (með ýkjum) að helmingur þjóðarinnar starfaði sem embættismenn. Ríkisbáknið varð stöðugt þyngra á fóðrum og skattar hækkaðir í sífellu. En á sama tíma rýrnaði myntin svo mjög að Díócletíanus keisari gerði kröfu um að skattur yrði goldinn í vörum. Enn varð að stækka ríkisbáknið til að annast skattinnheimtuna og skattaeftirlit. Þá voru lamandi áhrif hins dauða hramms ríkisvaldsins orðin slík að atvinnulíf var víða drepið í dróma og heilu borgirnar lögðust í eyði vegna skattpíningar. Á árum Rómarfriðarins voru þess dæmi að þjóðir sæktust eftir að komast undir rómversk yfirráð en á fjórðu öldinni flúðu margir skattheimtuna og leituðu hælis meðal frumstæðari þjóða.

Þær viðvaranir sem þessi saga flytur eru ærandi á tímum þegar umfang hins opinbera vex ár frá ári án þess að nokkur fái rönd við reist.

Vanhirða og agaleysi

Rómverska heimsveldið var svo ævintýralega stórbrotið að engin leið er að skynja umfang þess nema virða fyrir sér einstök dæmi. Suðurálfa dregur nafn sitt af rómverska skattlandinu Afríku og meðfram allri norðurströnd álfunnar uxu upp blómlegar byggðir rómverskra landnema sem með verksnilli sinni söfnuðu vatni í forðaþrær og létu renna í áveituskurði þegar árnar þornuðu. Svo vel tókst til við ræktun örfoka lands að vín- og smjörviðarekrurnar teygðust sífellt lengra til suðurs. Á okkar dögum má hvarvetna finna rómverskar rústir á þessum slóðum, mitt í skrælnaðri eyðimörk. Will Durant kemst svo að orði í Rómarsögu sinni að jarðargróður sá sem áður var ræktaður í syðstu skattlöndum Rómverja hafi ekki orðið örfoka sandur fyrir breytingar á loftslagi heldur vegna umbyltingar stjórnarfars: „Það ríki hrundi sem veitt hafði fjárhagslegt öryggi, aga og frið, en við tók óstjórn með vanhirðu og agaleysi.“

Öll okkar siðmenning getur farið sömu leið hirði menn ekki um að draga nauðsynlega lærdóma af sögunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Að vera eða ekki vera umsóknarríki

Að vera eða ekki vera umsóknarríki
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dagur fagnar heimsókn Ursulu von der Leyen – „Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður“

Dagur fagnar heimsókn Ursulu von der Leyen – „Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Ég er hræddur um að stjórnarandstaðan sé gengin af göflunum“

„Ég er hræddur um að stjórnarandstaðan sé gengin af göflunum“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan reyndi ekki að koma neinum málum í gegn – var bara á móti öllu