Kona, sem ferðaðist að flugvélarflakinu á Sólheimasandi, segir ferðamannastaðinn sýna þeim sem lentu í flugslysinu litla virðingu. Gangan að flakinu sé löng og skortur á allri aðstöðu eða upplýsingum.
„Flugvélaflagið á Sólheimasandi. Með virðingu fyrir þeim sem lifðu af flugslysið, þetta var ótrúlega löng ganga sem maður fékk lítið fyrir,“ segir ósátt bandarísk kona á samfélagsmiðlasíðu ferðamanna á Facebook. „Því miður þarf maður að borga fyrir bílastæðið, það er engin salernisaðstaða, engar upplýsingar eða skilti um slysið. Bara löng og erfið ganga. Það er skutla sem kostar um 20 dollara hvora leið ef þú vilt enn þá fara að þessum stað.“
Flakið á Sólheimasandi hefur verið þar síðan árið 1973. Eins og segir á heimasíðu Eyvindarholts var vélinni nauðlent í fjörunni eftir að hafa glímt við vélarbilun á leið frá Höfn í Hornafirði til Keflavíkur. Enginn lést í slysinu. Var flakið upp á sandinn og tekið úr því það sem hægt var að nýta en vélin var í eigu bandaríska hersins.
Upp úr aldamótum fór flakið að verða vinsælt og er í dag einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Megi það meðal annars rekja til heimsókna frægs fólks á borð við Justin Bieber sem hafa látið mynda sig við það.
Vegna ágangs fór flakinu hrakandi og var nýtt flak DC-3 flugvélar keypt sem stendur á sandinum.
Í athugasemdum við færsluna bendir ein kona á að Bandaríkjaher hafi gefið heimamönnum eldsneytið og fjarlægt hættuleg efni. Ástæðan fyrir því að flakið sé þarna enn er af því að landeigandinn hafi aldrei skilað inn réttu pappírunum til að láta fjarlægja það.
Önnur tekur undir með þeirri sem setti inn færsluna að gangan sé löng. „Það tók mig tvo og hálfan klukkutíma að ganga báðar leiðir og í mikilli rigningu,“ segir hún ósátt.
„Fór ekki að því. Sóun á tíma og peningum. Við sáum það frá veginum. Ég sagði fjölskyldunni hversu langan tíma þetta myndi taka og hvað þetta myndi kosta,“ segir annar ferðamaður.
„Ég hef alltaf haldið því fram að þetta sé versti ferðamannastaðurinn þarna. Ég mæli aldrei með honum við neinn,“ segir annar.
Aðrir eru hrifnir og benda konunni sem setti inn færsluna á að allar upplýsingar um staðinn séu til á netinu og hún hefði getað flett þessu upp áður en hún fór af stað. Hún hefði mátt gera sér grein fyrir því hversu langan tíma þetta myndi taka og fyrir aðstöðuleysinu.
„Fullorðinn vélstjóra nörda sonur minn elskaði þetta. Sem og flestir sem voru með okkur í skutlunni, fólk var að taka myndir og ímynda sér hvað hefði gerst,“ segir einn maður.
„Persónulega naut ég þess að fara þangað um kvöld. Ég tók þessa mynd og naut reynslunnar.“