Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir segir að málþóf og tafaleikir stjórnarandstöðunnar hafi ekki skilað henni neinu nema fylgistapi og skömm. Það sýni kannanir. Sorglegt hafi verið að sjá þingmenn, reynda sem óreynda, leggja allt í sölurnar fyrir stórútgerðina.
„Eitt af markmiðum stjórnarandstöðunnar á fyrsta þingi nýrrar ríkisstjórnar var sjá til þess að sem fæst mál fengju eðlilega þinglega meðferð. Allt var gert til að reyna að útiloka að frumvarp um breytingar á veiðigjaldi kæmist til lokaafgreiðslu. Sama hvað það kostaði og burt séð frá því hvort almenningi líkaði það betur eða verr,“ segir Kolbrún í aðsendri grein á Vísi.
Vísar hún til nýlegrar könnunar Maskínu sem sýni sterka vísbendingu um að málþóf og tafaleikir stjórnarandstöðunnar hafi ekki skilað henni neinu öðru en fylgistapi og skömm. En stjórnarandstöðuflokkarnir töpuðu fylgi í sumar.
„Það hefur legið fyrir í nokkrar vikur að tafaleikir stjórnarandstöðunnar og málþóf voru ekki að falla í góðan jarðveg hjá þjóðinni. Engu að síður héldu þessir þrír flokkar áfram skemmdarverkastarfsemi sinni og þæfðu mál ríkisstjórnarinnar, jafnvel mál sem áttu rætur sínar að rekja til fyrri ríkisstjórnar,“ segir Kolbrún. „Óánægja fólks með málþóf og tafir skipti minnihlutann engu máli. Tafaleikir og málþóf var viðhaft á öllum stigum þinglegrar meðferðar í nánast öllum málum við 1. umræðu, í nefndarstörfum, í 2. umræðu og jafnvel í 3. umræðu sem er fáheyrt.“
Hún segir að það hafi verið fljótlega ljóst að drifkraftur stjórnarandstöðunnar til skemmdarverka hafi verið annar en hagsmunir almennings. Hvatningin kom öll úr einni átt, frá samtökum útgerðanna.
„Það hefur farið í taugarnar á stjórnarandstöðunni hvað ríkisstjórnin og flokkarnir sem standa henni að baki starfa vel saman. Samheldnin er einstök og því meira sem mótvindar blása því samhentari og sterkari verður ríkisstjórnarsamstarfið,“ segir Kolbrún. „Þetta hefur framkallað biturð og pirring hjá minnihlutanum. Hvert tækifæri hefur verið notað til að úthúða Flokki fólksins og formanni hans, enda telja Sjálfstæðismenn og jafnvel Miðflokksmenn sem héldu að þeir gætu gengið að samstarfi við Flokk fólksins vísu að loknum kosningum að þeir eigi harma að hefna.“
Þrátt fyrir málþóf og ósvífni stjórnarandstöðunnar hafi tekist að afgreiða 35 mál stjórnarfrumvörp á fyrstu fimm mánuðunum og 11 þingsályktanir. Aðeins eitt mál hafi orðið eftir í nefndum, ekki síst fyrir röggsemi þingmanna Flokks fólksins í nefndarstörfum.
„Eitt þeirra mála sem minnihlutanum tókst að koma í veg fyrir að næði fram að ganga var frumvarp dómsmálaráðherra um meðferð sakamála. Einnig stöðvaði stjórnarandstaðan frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga sem felur í sér afturköllun alþjóðlegrar verndar gerist hælisleitendur alvarlega brotlegir við lög,“ segir Kolbrún.
Stjórnarandstaðan hafi beinlínis verið að senda þjóðinni fingurinn. Hafi komið í veg fyrir 16 frumvörp Viðreisnar, 10 Samfylkingar og 9 Flokks fólksins.
„Þeirra á meðal er frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á húsaleigulögum sem ætlað er að stórbæta réttindi leigjenda með skráningu allra leigusamninga og þaki á hækkun húsaleigu. Frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var ekki heldur gefið grið,“ segir hún að lokum. „Það var sorglegt að sjá jafnt reyndari þingmenn jafnt sem óreynda varaþingmenn stjórnarandstöðunnar leggja allt í sölurnar í vörnum fyrir stórútgerðina. En kannanir sýna að þar sáðu þessir þrír flokkar ekki til góðrar uppskeru.“