Núna er sá tími ársins þegar útilegur eru í algleymingi og tjaldsvæði þéttsetin. Þó að oftast nær gangi ferðalagið vel koma upp ýmis álitamál og umræða um tjaldsvæði er mikil á samfélagsmiðlum. Eins og komið hefur fram í fréttum í sumar sýður stundum upp úr vegna ágreinings ferðamanna um fjarlægðir milli tjaldvagna og húsbíla sem oft standa býsna þétt.
Kona ein birti áhugaverða færslu í Facebook-hópnum „Tjaldsvæði – umræðuvettvangur“ þar sem hún kvartar undan umgengni erlendra ferðamanna á tjaldsvæðum:
„Það er merkilegt að þegar maður er á tjaldsvæði þar sem er nóg pláss þá koma útlendingar seint um kvöld á litlu kúkabílunum sínum og klessa sér alveg upp við næsta ferðavagn. Síðan hefjast hurðaskellir frameftir á meðan þeir elda og gera og græja fyrir nóttina.
Á morgnana hefjast svo sömu hurðaskellirnir upp úr kl.sex.
Jólasveinninn Hurðaskellir hvað…….“
Innleggið fær misjafnar undirtektir og önnur ferðakona telur það vera kostulegt og gott dæmi um frekju og sjálfelsku Íslendinga:
„Að lesa þetta er kostulegt. Erlendir ferðamenn eru aðalviðskiptavinir tjaldstæða og þeir hafa það markmið á tjaldstæði að fara í sturtu, borða og sofa. Þeir koma hvernig sem veðrið er, engin vandræði eða fylleríisvesen, þetta fólk er að ferðast og njóta. Íslendingurinn tekur fjórfalt pláss á tjaldsvæði miðað við hinn auma ferðamann. Hann mætir bara ef spáin er góð og ætlast til að allt sé hljótt þegar honum þóknast að sofa, fái góða þjónustu og er jafnvel með hávaða fram eftir nóttu. Spurning að merkja íslenska svæðið þegar spáin er þokkaleg.“
Málshefjandi segist vita vel að Íslendingar geti verið plássfrekir. Það breyti því ekki að hennar upplifun og skoðun eigi rétt á sér:
„Ég er búin að gista nær 40 nætur á mismunandi tjaldsvæðum í sumar og veit alveg að íslendingar taka oft mikið pláss. Ég er viss um það að þeir sem komu um og eftir miðnætti lögðu alveg upp að bilnum mínum og eru að gera og græja sig af stað með tilheyrandi ĥurðaskellum um kl. sex hafa ekki allir greitt fyrir sig. Ég er alveg sjálfbær og nota litla þjónustu en borga samt fyrir hana. Eg kem heldur ekki inn á tjaldsvæði á daginn, tengi við rafmagn og fer í sturtu en keyri síðan í burtu án þess að greiða krónu fyrir. Eg ætlast heldur ekki til að þjónustuhús sé fyrir mig og tölvuna mína. Fylírísvesen og hávaði í Íslendingum er sem betur fer nánast orðin undantekning frekar en regla. Svo þetta er mín skoðun og þú þarft ekki að vera sammála.“
Önnur kona kemur erlendu túristunum til varnar. Hún á að baki 11 daga ferð kringum landið segist ekki geta kvartað undan erlendum túristum á tjaldsvæðum, það fari síst meira fyrir þeim en Íslendingum. En vissulega komi þeir seint og fari snemma.
Aðrir taka undir með málshefjenda og vilja meina að margir erlendir ferðamenn komi sér undan því að borga fyrir gistinguna með því að tjalda mjög seint og yfirgefa svæðið mjög snemma. Maður einn skrifar síðan:
„Kúkúbílarnir koma gjarnan eftir síðasta rúnt varðarins um svæðið og eru farnir áður en hann mætir að morgni. Alls ekki allir en hef samt oft séð þetta. Koma inn á svæðið seinnipartin og kanna það, fara burtu og koma svo seint að kvöldi.“
Kona ein tekur undir með málshefjanda og skrifar:
„Vá hvað ég er sammála , nýkomin úr 4 daga ferð um Snæfellsnesið og jeminn hvað komum þreytt heim eftir ferðina , hurðaskellir langt fram eftir og vekjaraklukkur á hæðstu stillingu kl 6:30 á morgnana.“