Litla Dachshund tíkin Valerie komst í fréttir í Ástralíu nýverið eftir að hafa óvænt snúið til baka úr eins og hálfs árs eyðimerkurgöngu. Tíkin litla var týnd í 529 daga í óbyggðunum og fáir bjuggust við að sjá hana aftur.
„Hún er drottning hússins. Þetta er hennar hús og við bara búum hér,“ sagði eigandi Valerie, hin 24 ára gamla Georgia Gardner, við fréttastofuna NPR í lok maí. En hún á Valerie með kærasta sínum Josh Fishlock, sem er ári eldri.
Dachshund, stundum kallaðir pylsuhundar, eru þekktir fyrir sínar stuttu lappir og langa búk. En þeir voru ræktaðir á þennan hátt í Þýskalandi til þess að geta borað sig ofan í holur greifingja. Í dag eru þeir fyrst og fremst ræktaðir sem gæludýr.
Valerie, sem er ekki nema 4 kíló að þyngd, týndist í útileguferð til Kengúrueyjar, vestan við borgina Adelaide í suðurhluta landsins, í nóvember árið 2023. Valerie hljóp í burtu frjá tjaldinu eitthvað út í buskann.
Hún var með örmerki og Apple AirTag merki í ólinni. En það dugði lítið því að eyjan er mjög strjálbýl og stór, einkum notuð fyrir búfénað. Til þess að merkið myndi hjálpa þyrfti einhver að vera nálægt því með Apple Bluetooth búnað.
Þegar þau fundu hana ekki auglýstu þau eftir henni á samfélagsmiðlum og skyldu eftir eigin fatnað á staðnum ef ske kynni að Valerie myndi finna lyktina og koma til baka. Gerogia og Josh leituðu í nokkra daga og fengu hjálp frá heimamönnum á eyjunni en allt kom fyrir ekki. Þau þurftu að snúa aftur upp á meginlandið án Valerie.
„Að yfirgefa eyjuna var sennilega erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu,“ sagði Josh. „Við fórum þangað þrjú en komum tvö til baka. Það var hræðileg tilfinning.“
Þau vonuðust til þess að einhver myndi finna Valerie og þau gætu farið aftur út í eyjuna til að sækja hana. Kannski eftir eina viku eða tvær. En vikurnar urðu að mánuðum og svo leið meira en heilt ár. Georgia og Josh misstu vonina og reyndu að sætta sig við það að líklega myndi Valerie aldrei snúa til baka. Hún hefði sennilega orðið rándýrum að bráð, svo sem snákum eða örnum. Þau bjuggu samt til sögu um að gömul kona hefði fundið Valerie og hún væri heima hjá henni í hlýju rúmi með nóg af hundakexi.
„En við reyndum að vera raunsæ og skilja að það gæti farið svo að við myndum aldrei sjá hana aftur,“ sagði Georgia. „Og við þurftum að vinna okkur í gegnum þá sorg.“
En þá gerðist það ótrúlega. Einn dag í febrúar, meira en einu ári eftir að Valerie hafði týnst, náði bóndi á Kengúrueyju ljósmynd af litlum hundi hlaupandi um akur. Myndin var send til dýrahjálparsamtaka á eyjunni. Samtökin þekktu til Georgiu og Josh og sendu þeim myndina.
Georgia sagði að þau tryðu þessu varla. Hvernig gat 4 kílóa hundur lifað svona lengi þarna? En það fór ekkert á milli mála. Þetta var Valerie á myndinni.
Hjálparsamtökin, Kangala Wildlife Rescue, fóru á fullt að reyna að fanga Valerie en það reyndist ekki létt verk. Setta voru upp kattagildrur út um allt og starfsfólkið eyddi öllum stundum að leita. Hins vegar kom allt annað en Valerie í gildrurnar, það er villikettir, merðir og alls kyns pokadýr.
Gerðar voru fleiri týpur af gildrum, meðal annars stór fjarstýrð búragildra sem var reglulega fyllt með grilluðum kjúklingi, leikföngum og fötum eigendanna.
Loks fór Valerie að láta sjá sig. Stökk og greip matinn án þess að það tækist að ná henni. Eftir tvo mánuði gekk loksins allt upp og Valerie var gripin.
Enginn veit hvernig Valerie náði að lifa svona lengi í óbyggðunum. Hún var fönguð um 50 kílómetrum frá þeim stað þar sem hún hvarf einu og hálfu ári áður. Hugsanlega hafi hún fengið vatn og fóður af nálægum bóndabæjum eða þá að hún hafi étið hræ af öðrum dýrum.
Farið var með hana til dýralæknis sem útskrifaði hana sem stálslegna. Hún hafði meira að segja þyngst í útlegðinni.
Eftir að hún sneri heim til eigenda sinna hefur allt gengið eins og í sögu. Hún fór beint að leika sér með dótið sitt, fara í göngutúra og hjúfra sig uppi í rúmi.
„Hún er orðin svolítið sjálfstæðari,“ sagði Georgia. „Hún er enn þá háð okkur en hún er sterkari og veit hvað hún vill.“