fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Eyjan
Laugardaginn 5. júlí 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera orðinn afhuga því að Íslendingar búi við lýðræði. Þingmenn hans krefjast þess að minnihluti Alþingis fái að ráða, en til vara að þeir segi meirihlutanum fyrir verkum. Það sé þeim þar að auki heilög skylda að stöðva þingræðið svo fáræðið fái sínu framgengt.

Vilji alls þorra almennings sé landinu líka skeinuhættari en svo að hann megi ráða.

Þetta merkir að gamall borgaraflokkur boðar nú bráðræði og unir því ekki lengur að farið sé að leikreglum lýðræðisins. Það þurfi að hafa vit fyrir almúganum. Hinir íhaldsflokkarnir tveir, sem fylla tómarúmið á hægri væng stjórnmálanna um þessar mundir, dilla svo rófunni.

Mantran er einföld. Eigendur valdsins fari alltaf best með landsins magt. Hinir, þótt grípi stundum óverðskuldað í beislið, hafi ekki taumhaldið í arti sínu og eðli. Þeir kunni ekki handtökin.

Í miðju þessu valdastríði stendur orrustan um Ísland yfir, og snýr að meginspurningunni hvort nýr og rúmur meirihluti á Alþingi hafi umboð til valda. Hún lýtur að því ágenga spursmáli hvort hreinum valdaskiptum í landinu fylgi heimild til að breyta um kúrs. Og akkúrat hvort það megi brjóta upp það valdakerfi sem afturhaldið í landinu hefur náð að festa í sessi á meginkafla lýðveldissögunnar.

Og mega aðrir yfirleitt ráða? Eða ber að stjórna áfram í anda gamla meirihlutans, jafnvel þótt hann hafi fengið lökustu kosningu í sögu sinni í síðustu alþingiskosningum. Og var raunar hafnað svo rækilega að sjálfur forystuflokkurinn í því fordæmalausa vinstrasamstarfi féll út af þingi.

Allt er hér sögulegt, svo ekki sé meira sagt. Einnig það að nýja ríkisstjórnin nýtur meiri vinsælda eftir ríflega hálfs árs veru við stjórnvölinn en þekkst hefur frá því fyrir hrun. Að sama skapi býr núverandi minnihluti búi við slíkar óvinsældir að samjöfnuður er vandfundinn í sögu lands og þjóðar.

„Þetta merkir að gamall borgaraflokkur boðar nú bráðræði og unir því ekki lengur að farið sé að leikreglum lýðræðisins.“

Þessum mestu töpurum stjórnmálasögunnar, það sem af er öldinni, þykir sjálfgefið að þeir stjórni áfram, og raunar ævinlega. Hefðarrétturinn sé þeirra megin, og því ber í besta falli að hægja á valdaskiptunum, fyrst þau á annað borð þurftu að verða, en þó miklu heldur að hætta við þau.

Það sé nefnilega líku farið með völdin og fiskinn í sjónum. Þjóðin eigi hvorugt. Það sé búið að viðurkenna framsal á hvoru tveggja, sem þar að auki sé orðið að erfðagóssi.

En hver er viðskilnaður hægriaflanna á Íslandi þegar fjórðungur er liðinn af nýrri öld? Hvernig er komið fyrir Íslandi eftir að tilbiðjendur einkaframtaksins hafa stjórnað landinu í 20 ár af þeim 25 árum sem liðin eru frá aldamótum, en hrunárin skera sig þar úr þegar vinstriflokkarnir sópuðu upp óþverrann eftir ósvífna aðför frjálshyggjunnar að landi og þjóð.

Nýir þingmenn Sjálfstæðisflokksins á löggjafarsamkundunni koma endurtekið upp í pontu Alþingis og segjast gapandi yfir stöðu mála. Það hafi meira og minna allt farið úrskeiðis við stjórn landsins, en það sé áhyggjuefni að ný stjórn hafi ekki lagað ástand mála á því hálfa ári sem hún hefur verið við völd.

Þessum þingmönnum er vorkunn. Gömlu stjórninni, sem sat frá haustinu 2017 til jafnlengdar 2024 tókst að glutra niður heilbrigðiskerfinu, öldrunarþjónustunni, menntakerfinu, að ekki sé talað um vegamálum þar sem innviðaskuldin er meiri en nokkru sinni. Engar stærri virkjanir voru reistar, engin jarðgöng gerð, en þess heldur var ríkisstarfsmönnum fjölgað svo nemur Íslandsmeti, og kjör þeirra löguð svo mjög að einkageirinn getur ekki lengur keppt við það opinbera um starfsfólk.

Og á þessu sjö ára tímabili ruku vextir upp í 9,25 prósent, verðbólga var vel yfir viðmiði og kostnaður á nauðsynjum að jafnaði 44 prósentum hærri en þekkist annars staðar í Evrópu. Og svo skilaði gamla stjórnin eins prósenta hagvexti á síðasta ári.

Það er vert að skipta um kúrs. Það sjá nýir þingmenn Sjálfstæðisflokksins – og aðrir landsmenn. Á meðan reyna samt gamlir varðhundar valdsins að snúa niður lýðræðislega kjörið stjórnvald. Dagskrárvaldið skuli vera þeirra á þingi. Lýðræðið virki því aðeins ef völdin eru á réttum stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá

Svarthöfði skrifar: Málæði um ekki neitt meðan sumarið líður hjá
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Enn eru fornmenn á ferð

Enn eru fornmenn á ferð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Hvað mun sagan segja?

Thomas Möller skrifar: Hvað mun sagan segja?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Grínverjinn og skautunin

Ágúst Borgþór skrifar: Grínverjinn og skautunin
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Ég er ekki í nestiskulnun

Nína Richter skrifar: Ég er ekki í nestiskulnun
EyjanFastir pennar
05.06.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Reiptog lýðræðis og hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Reiptog lýðræðis og hagsmuna