Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu fékk skell í fyrsta leik á mótinu með því að tapa gegn Finnum 1-0 en búist var við sigri Íslands.
Finnar eru slakasta liðið í riðlinum samkvæmt styrkleikalista FIFA og því komu úrslitin vel á óvart.
Fyrir leikinn var Morgunblaðið með sérstakt hlaðvarp til að hitta upp fyrir mótið og þar bar á gagnrýni á KSÍ og vinnubrögð þar.
„Sveindís Jane er ekki send í nein viðtöl, hún virðist bara eiga vera í fókus á æfingasvæðinu og uppi á hótelherbergi,“ sagði Gústi B. í Fyrsta sætinu á mbl.is.
Í frétt Morgunblaðsins úr hlaðvarpinu er því haldið fram að fjölmiðlar hafi fengið miklu minna aðgengi að liðinu síðustu ár. Svona séu hlutirnir ekki hjá HSÍ og KKÍ.
„Ég væri alveg til í að geta valið hvaða leikmenn við fáum í viðtöl til okkar en KSÍ heldur þétt utan um þetta og er með sitt plan,“ sagði Edda Sif Pálsdóttir fréttakona RÚV.
„Þeir gefa kost á ákveðnum leikmönnum á ákveðnum tímum og það er kannski eitthvað sem mætti skoða. Þetta er klárlega eitthvað sem við fjölmiðlamenn myndum vilja breyta, svo það séu nú ekki allir fjölmiðlar með sömu viðtölin alltaf og sömu fyrirsagnirnar,“ sagði Edda Sif einnig.