fbpx
Sunnudagur 02.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Þetta er það sem stórútgerðin fær í afslátt hjá þjóð sinni

Eyjan
Laugardaginn 7. júní 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga er frá sér numin af áhyggjum yfir því að allra ríkustu fyrirtæki landsins eigi að greiða gjöld í samræmi við lög í landinu. Það sé þeim ekki einasta ofviða, heldur felist í því óbærilegt óréttlæti sem varla eigi sér samjöfnuð í sögunni.

Því kallar minnihluti Alþingis eftir greiningum. Hann óskar eftir útreikningum. Það beri að leggja fram tölur af hvaða tagi sem er, sem sýni hvaða áhrif hækkun á veiðigjöldum hafa á sjósækjendur, stóra og smáa, svo og sjávarbyggðir og samfélagið allt.

Gott og vel. Hér koma mínar greiningar, ef mig skyldi kalla.

Það er nefnilega með útgerðina eins og mig, þegar ég fer út í byggingavöruverslun og leigi mér borvél, að ég greiði gjald fyrir afnotin. Það er ekki skattur. Það er leiguverð fyrir að hafa tímabundinn aðgang að annarra manna eigu.

Það sama gildir um fiskveiðiauðlindina. Það stendur skýrum stöfum. Gott ef ekki bara í fyrstu grein laga um okkar ágætu fiskveiðilöggjöf. Altso, tímabundin afnot. Alveg eins og ég í búðinni, því ég á ekki borvélina þótt ég leigi hana. Það sama á við um útgerðina og fiskinn.

Flókið? Nei. Lögum samkvæmt? Já!

Allir vita hvað það kostar að leiga borvél í búðinni. Það er samkvæmt opinberri og upplýstri verðskrá. Allir vita líka hvað það kostar að fá tímabundin leyfi til að veiða fiskinn í sjónum. En það er aftur á móti samkvæmt sérstökum afsláttarkjörum. Íslensk stjórnvöld hafa afráðið um árabil að bjóða ríkustu fyrirtækjum landsins upp á þá útsölu, ólíkt því sem eigendur borvélarinnar hafa boðið mér. Ég borga alltaf sama gjaldið fyrir tólið það arna. Og kvarta raunar ekki undan því. Hef aldrei gert.

„… hefði 33ja prósenta rentureglan verið efnd að fullu, sem er hlutur þjóðarinnar í auðlindinni, ætti þjóðin inni hjá útgerðinni um 135 milljarða króna …“

Ef útgerðin í landinu, sem nýtur þeirra forréttinda að fá ekki aðeins tímabundinn aðgang að einni bestu og verðmætustu auðlind í heimi, heldur svo til varanlega, greiddi þjóðinni rentu sína í samræmi við verðskrá fiskveiðilöggjafarinnar á þessari öld, má ætla, samkvæmt skattasérfræðingum sem gerst hafa rýnt í bókhald þessa bransa, að hún skuldi almenningi tugmilljarða á tugmilljarða ofan.

Það er raunar hægt að reikna dæmið á marga vegu. En hefði 33ja prósenta rentureglan verið efnd að fullu, sem er hlutur þjóðarinnar í auðlindinni, ætti þjóðin inni hjá útgerðinni um 135 milljarða króna frá því auðlindarentan fór að myndast fyrir röskum hálfum öðrum áratug. Þetta er tekjutap ríkisins fyrir það að leggja á of lágt veiðigjald, í öllu falli langt undir þeirri rentu sem lögin gera ráð fyrir.

Greidd veiðigjöld útgerðarinnar frá 2010 til 2020 námu að meðaltali 7 milljörðum á ári. Þau hefðu átt að vera 16 milljarðar á ári, að meðaltali, ef þjóðin hefði fengið gjöld sín greidd að fullu. Mismunurinn er 9 milljarðar á ári á ellefu ára tímabili, eða samtals 99 milljarðar króna. Ef sá mismunur er yfirfærður á árin 2021 til 2024, fæst samtalan 135 milljarðar, sem útgerðin fékk í afslátt af lögboðnum gjöldum á umræddum tíma.

En 33ja prósenta renta er raunar ekki há af jafn einstakri auðlind og fiskurinn í sjónum er, en hann skapar fáheyrðan virðisauka. Upphaflegt viðmið var nefnilega 65 prósent. Það hefði merkt 30 milljarða króna veiðigjöld á ári á síðustu 15 árum, í stað 7 milljarða, sem hækkaði gjaldaafsláttinn upp í heila 365 milljarða króna á téðum tíma. Það má leggja vandaða vegi fyrir það, án blæðinga.

En það er nefnilega hægt að reikna áhrif veiðigjalda á marga vegu.

Það er svo að vonum, að stjórnarandstöðuþingmenn á Alþingi, sem gráta í pontu yfir píningu ríkustu greifa landsins þessi dægrin, þakki mér fyrir innsenda umsögn. Eftir nógu mörgum útreikningum hafa þeir kallað. Því af tölunum skulið þið þekkja þá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Mælum rétt

Thomas Möller skrifar: Mælum rétt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Við svona kannski höfum ákveðið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“

Björn Jón skrifar: „Þorðu að vera þjóðrækinn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér

Sigmundur Ernir skrifar: Skerðu niður sem lengst frá sjálfum þér