Kristjana Þórdís Jónsdóttir hefur tekið við sem forstöðumaður söludeildar TVG-Zimsen. Hún lauk námi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2023 og hefur starfað innan fyrirtækisins frá árinu 2019.
„Amma mín og nafna, Þórdís Ingvarsdóttir, starfaði í móttöku TVG-Zimsen í 14 ár. Þegar hún lét af störfum hóf ég sumarstarf hjá fyrirtækinu og má segja að ég hafi fetað í hennar fótspor sem litla Dísa. Á námsárunum vann ég svo með námi í hlutastarfi og fékk tækifæri til að kynnast ólíkum deildum; þjónustudeildinni, akstursdeildinni og sjó- og flugdeildinni, þar sem ég sinnti skráningu sendinga. Ég fékk einnig tækifæri til að starfa tímabundið á skrifstofu Eimskips á Grænlandi, sem var dýrmæt reynsla og gaf mér innsýn í alþjóðlega starfsemi samstæðunnar, en TVG-Zimsen er dótturfélag Eimskips,“ segir Kristjana.
Lengst af starfaði hún við heilgámaflutninga í samstarfi við CMA CGM, þriðja stærsta skipafélag heims og TVG-Zimsen hefur verið umboðsaðili CMA CGM frá árinu 2007.
„Í því starfi sinnti ég samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila víða um heim, sem gaf mér mikilvæga innsýn í fjölbreytta menningarheima og alþjóðlegt viðskiptalíf,“ segir Kristjana. Eftir útskrift hóf hún fullt starf í CMA-deild fyrirtækisins.
„Í samstarfi við CMA CGM getum við boðið viðskiptavinum okkar samkeppnishæfar heilgámalausnir til og frá yfir 420 höfnum um allan heim. Þetta samstarf gerir okkur kleift að tengja Ísland á öruggan og hagkvæman hátt við alþjóðlega verslun og opnar viðskiptavinum okkar dyr að einu öflugasta flutningsneti heims,“ bætir hún við.
Kristjana segist spennt fyrir nýju hlutverki sínu sem forstöðumaður.
„Það ríkir góður starfsandi hjá TVG-Zimsen og sterk liðsheild. Hér starfar fjölbreyttur hópur þar sem reynsla og ný sýn blandast saman á öflugan hátt. Ég er mjög þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt og hlakka til að leiða áfram frábært teymi söludeildarinnar með því markmiði að efla þjónustu, sambönd og árangur,“ segir hún.
Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, segir: „Við erum afar ánægð að fá Kristjönu í þetta leiðtogahlutverk. Hún hefur sýnt mikla elju og árangur í öllu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur og hefur vaxið með fyrirtækinu. Ég hef fulla trú á því að hún muni leiða söludeildina inn í næsta kafla af vexti og þróun.“