fbpx
Sunnudagur 18.maí 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Uppgjörið við eftirhrunsmálin

Eyjan
Sunnudaginn 18. maí 2025 15:15

Nornabrenna, myndskreyting úr handriti frá 17. öld varðveittu á Zentralbibliothek í Zürich í Sviss.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skömmu eftir fall bankanna haustið 2008 voru sett lög um embætti sérstaks saksóknara, sem rannsaka skyldi mögulega refsiverða háttsemi í aðdraganda, í tengslum við og í kjölfar þeirra atburða sem leiddu til falls bankanna. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um embætti sérstaks saksóknara kemur meðal annars fram að með rannsókn og dómsmeðferð brota sem kynnu að hafa verið framin mætti „efla réttlætiskennd,“ „sefa reiði“ og „auka trú borgaranna á réttarríkið“. Í kjölfarið fylgdi umfangsmesta sakamálarannsókn Íslandssögunnar, sem tók til fjölmargra einstaklinga og lögaðila.

Á umrótstímum, líkt og í kjölfar efnahagskreppu, getur sú krafa orðið hávær að mannréttindi og leikreglur réttarríkisins „tefji fyrir framgangi réttvísinnar“. En því má halda fram að einmitt á slíkum örlagatímum ríði á að grundvallarreglur haldi.

Tilraunastarfsemi með ákæruvald

Á endanum dæmdu íslenskir dómstólar starfsmenn bankanna samtals til hundrað ára fangelsisvistar. Á heimsvísu hlutu 47 einstaklingar fangelsisdóma vegna fjármálakreppunnar og þar af voru 25 Íslendingar. Sá er þó munur á þessum erlendu málum og þeim íslensku að í erlendu málunum voru menn dæmdir fyrir svik og fjárdrátt en í þeim íslensku höfðu hinir dómfelldu í nær öllum tilfellum engan persónulegan ávinning af þeim ákvörðunum sem þeir voru dæmdir fyrir.

Mannréttindadómstóllinn hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að dómar í umræddum málum fái ekki staðist. Og eftir því sem rykið sest verður mönnum æ ljósara hvernig þvingunarrúræðum var misbeitt við rannsókn umræddra mála og farið offari við meðferð ákæruvalds. Viðhafðar voru stórkostlegar símhleranir ásamt annarri leynilegri upplýsingaöflun, menn hnepptir ítrekað í gæsluvarðhald að ófyrirsynju og látnir sæta niðurlægjandi handtökum, húsleitum og haldlagningu gagna.

Gamalreyndum lögmönnum sem ég hef rætt við ber saman um að nýjar og harkalegri aðferðir hafi farið að tíðkast við meðferð mála hjá sérstökum saksóknara en áður höfðu þekkst. Þess séu ótal dæmi að hlutlægniskylda rannsakenda og ákæruvalds hafi verið þverbrotin. Einn orðaði það svo að þarna hefði verið í gangi „alls konar tilraunastarfsemi“ með ákæruvaldið og bankahrunið „glæpavætt“.

Fregnir af stórkostlegum gagnaleka nú frá hinu sáluga embætti sérstaks saksóknara draga enn betur fram í dagsljósið það offors sem ríkti við meðferð mála. Hér vekur ekki einasta athygli umfang gagnanna heldur líka að þeim skyldi ekki hafa verið eytt og að varsla þeirra hafi ekki verið tryggari en raun ber vitni. Lekinn kallar á rækilega endurskoðun á öllum eftirleik bankahrunsins. Í því sambandi þurfa embættismenn þeir sem um véluðu að sæta ábyrgð.

Verðum að draga rétta lærdóma

Mér finnst oft í samtímanum það viðhorf vera uppi að telji menn eitthvað hafa farið úrskeiðis við meðferð opinbers valds megi leysa úr málum með nýjum reglum og gjarnan stutt í viðbárur á borð við að „bæta þurfi verkferla“. Fyrir liggur þó að öll framkvæmd laga er í höndum manna af holdi og blóði. Vísi-Gísli Magnússon, sýslumaður Rangæinga á síðari hluta sautjándu aldar, orðaði það svo að betri væru góðir embættismenn en góð lög. Þau vísdómsorð eiga enn við og vert að rifja upp að það er þakkað mildi og réttvísi Vísa-Gísla að enginn galdramaður var brenndur hér sunnanlands, ólíkt því ofsóknaræði er rann á vestfirska embættismenn á sama tíma. Það skiptir nefnilega máli hver fer með valdið.

Fram yfir miðja síðustu öld var ákæruvald hérlendis nátengt hinu pólitíska valdi og ekki varð á því gagnger breyting fyrr en með stofnun embættis saksóknara ríkisins árið 1961 eftir að Viðreisnarstjórnin var komin til valda. Hugmyndir um slíkt sjálfstætt embætti áttu sér langan aðdraganda. Gunnar Thoroddsen, alþingismaður Mýrasýslu, lagði fram frumvarp til laga haustið 1934 þar að lútandi og mælti fyrir málinu í jómfrúarræðu sinni á Alþingi. Þar fórust honum meðal annars svo orð:

„Það hefir geysimikla þýðingu, í hverra höndum ákæruvaldið er og hvernig með það er farið. Það er hin mesta nauðsyn, að það sé í höndum góðra og réttsýnna manna og að því sé beitt með fullu réttlæti. Í meðferð þess er tvenns að gæta. Annars vegar, að því sé aðeins beitt gegn öllum þeim, sem glæpi hafa drýgt, og hins vegar, að því sé ekki beitt gegn saklausum mönnum. Það getur haft geigvænleg áhrif, ef maður er ákærður fyrir afbrot sem hann er alsaklaus af, jafnvel þótt hann verði sýknaður að lokum. Ákæran ein, með öllum þeim réttarhöldum, vitnaleiðslum, varðhaldi, yfirheyrslum og umtali manna í milli, sem sakamálarannsókn eru samfara, getur gert honum slíkt tjón, bæði andlega og efnalega, að hann bíði þess seint bætur.“

Ég teldi rétt að allir þeir sem fara með lögregluvald, ákæruvald og dómsvald hefðu þessa aðvörun hugfasta sérhvern dag í þjónustu sinni við land og lýðveldi. Hlutlægniskyldan ákæruvaldsins felur það í sér að samhliða þarf að gæta þess að koma lögum yfir þá sem afbrot fremja og að enginn saklaus þurfi að sæta dómi.

Fjöldi manns varð fyrir alvarlegum skaða, andlega jafnt sem efnalega, vegna misráðinna aðgerða við rannsókn mála í kjölfar bankahrunsins. Margt af því tjóni verður aldrei að fullu bætt. Fyrir þjóðfélagið er þó lykilatriði að dregnir verði réttir lærdómar af þessum málum og þeir embættismenn sem misfóru með vald látnir sæta ábyrgð. Tengsl milli manna hér á landi eru þó slík að lítið gagn yrði af gaumgæfilegri athugun nema fengnir yrðu erlendir rannsakendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hér vantar óperu

Björn Jón skrifar: Hér vantar óperu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennaárinu er fagnað – í kvíða

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennaárinu er fagnað – í kvíða
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa

Björn Jón Skrifar: Um gagnsemi prófa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn

Óttar Guðmundsson skrifar: Egill afi og Grettir taka stúdentinn
EyjanFastir pennar
12.04.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
12.04.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns