Leikmenn Tottenham eru alls ekki hræddir við það að spila við Manchester United í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.
Þetta segir varnarmaður liðsins, Micky van de Ven, en þessi tvö ensku stórlið munu eigast við á San Mames, heimavelli Athletic Bilbao.
United er samkvæmt veðbönkun sigurstranglegra liðið en bæði félög hafa átt erfitt uppdráttar í deildinni á þessu tímabili.
,,Hver einn og einasti leikmaður mun vilja fara til Bilbao og vinna titil. Þetta tímabil hefur verið erfitt og verður aðeins betra ef við vinnum keppnina,“ sagði Van de Ven.
,,United spilaði við Athletic sem er mjög gott lið og unnu 7-1, þeir eru líka gæðamiklir í Evrópu. Við vitum að þetta verður allt annað verkefni.“
,,Við erum hins vegar langt frá því að vera hræddir, við vitum hvað við getum og að leikurinn verður erfiður. Þeir hafa sýnt sín gæði í keppninni.“