fbpx
Laugardagur 10.maí 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi

Eyjan
Laugardaginn 10. maí 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt áhugafólk um bættan hag íslenskra afturhaldsafla, ætti að hafa verulegar áhyggjur af gamla íhaldsflokknum sem lengst af lýðveldissögunni hefur setið að völdum. Svo erfiðlega hefur honum gengið að sætta sig við fyrstu hreinu valdaskiptin í landinu, sem sögur fara af, að líkja má við pólitískt sjálfsofnæmi. Raunar er hann svo ringlaður frammi í þingsal á fyrstu mánuðum ársins að hann er byrjaður að fara gegn eigin gildum og gömlum stefnumiðum eins og ekkert í þeim efnum sé honum lengur heilagt. Og hefur hann þó verið tiltölulega trúfastur í gegnum tíðina – og kirkjurækinn, að sögn.

Á fyrstu hundrað dögum sínum í stjórnarandstöðu hefur framlag hans til pólitískrar umræðu á Íslandi falist í óskiljanlegu málþófi um plasttappa, endurteknar árásir á forsætisráðherra út af afsögn eins af ráðherrunum í ríkisstjórn landsins, og ólmrar andstöðu við leiðrétt veiðigjöld, svo ríkasta prósent landsins fái áfram afslátt af gjöldum og skyldum, einir Íslendinga.

Þetta er allt og sumt.

Það er ekki nema von að brostinn sé á flótti úr setuliði þessa þingflokks, því ef það er ekki vegna málefnaþurrðar og allsherjarskorts á uppbyggilegri framtíðarsýn fyrir land og þjóð, þá er það sjálfsagt sakir hjaðningavíganna innan hans sjálfs þar sem alvarlegur klofningur blasir við hverjum þeim sem kíkir á sundurlausa selluna. Í þeim efnum gengur raunar svo langt að nýkjörinn formaður flokksins er sagður vera í minnihluta í nýja þingflokksherberginu í Skála Alþingis, sem kemur svo sem ekki á óvart, sakir þess að þar fer ekki fulltrúi flokkseigenda, en Valhallarmegin á þeim bænum horfa menn nú á eftir föllnum frambjóðenda sínum fara úr landi til langbúðar.

„Á meðan ofsaríkasta fólk landsins skal áfram fá afslátt af lögbundnum gjöldum, er goldinn varhugur við því að öryrkjar þessa lands fái leiðréttingu á kjörum sínum.“

Allir velunnarar svona flokks, sem óttast nánara samstarf við álfuna sína og þráir veikan gjaldmiðil og vexti sem sliga fólk og fyrirtæki, hljóta að hafa orðið fyrir vonbrigðum með fyrstu tilþrif þessa gamla og volduga stjórnmálaafls á 156. löggjafarþingi Íslendinga. Sú breiðfylking sem þessi hreyfing hægrimanna var lengst af síðustu öld, og svolítið fram á þá nýju, talar ekki lengur út á á við, heldur inn á við. Því pólitíska samtali sem hún reynir þó enn þá að halda lifandi, beinir hún ekki lengur til almennings, stétt með stétt, heldur þröngs hóps auðkýfinganna sem hún hefur hlaðið undir svo árum og áratugum skiptir.

Pontuboðskapur þessa ágæta flokks á Alþingi er afdráttarlaus á nýju ári. Á meðan ofsaríkasta fólk landsins skal áfram fá afslátt af lögbundnum gjöldum, er goldinn varhugur við því að öryrkjar þessa lands fái leiðréttingu á kjörum sínum. Er það merki óráðsíu í ríkisfjármálum. Aukinn jöfnuður í samfélaginu ógni fjármálastöðugleika.

Þetta eru einmitt skilaboðin inn í fámennið. Þeir ríku fái afslátt. Aðrir borgi að fullu, hvað sem það kostar. En þetta er réttlætið, hægra megin pólitíkurinnar, ef sanngirni skyldi kalla.

Pólitískt sjálfsofnæmi hendir flokka sem hafa tapað áttum og fara jafnvel gegn sjálfum sér. Það er gömul saga og ný. Og hendir flokka beggja vegna miðjunnar í íslenskri pólitík. Afleiðingin er alla jafnan sú að föruflokkarnir tapa trúverðugleika og talsverðum hluta tryggra kjósenda, að ekki sé talað um lausafylgið sem leitar á náðir annarra og álitlegra afla sem tala fyrir skýrum boðskap sem þorri almennings getur mátað sig við í rauntíma – og sér einhverja framtíð í, svona yfirleitt.

Téður flokkur, sem hér hefur verið til umræðu – og klæjar nú um stundir undan sjálfum sér – getur gert betur en hann hefur sýnt í byrjun þings. Enn sem komið er hefur hann þó ekki sýnt áhuga á því.

Það sýnir harla sérkennilegur píratabragur hans nú um stundir, þar sem annað augað er blindað af bullandi biturð, ef ekki bæði glyrnurnar.

Á meðan geta ríkjandi stjórnvöld haldið áfram að taka til, án nokkurra vandkvæða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tómarúm fyllt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tómarúm fyllt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi

Sigmundur Ernir skrifar: Ótti íhaldsaflanna við vit og vísindi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiksoppar örlaganna

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiksoppar örlaganna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!

Svarthöfði skrifar: Sendu nú vælubíl að sækja mig!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma

Sigmundur Ernir skrifar: Mesta lýðræðisógn okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns

Óttar Guðmundsson skrifar: Kaldalóns
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Kynslóðir í kreppu

Steinunn Ólína skrifar: Kynslóðir í kreppu
EyjanFastir pennar
05.04.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks

Sigmundur Ernir skrifar: Alþjóðaviðskipti ráða mestu um hag fólks
EyjanFastir pennar
05.04.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður