fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Eyjan

Bergþór bergmálar málflutning SFS um ofurlaun í fiskvinnslu – „Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf“

Eyjan
Miðvikudaginn 7. maí 2025 12:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins veltir fyrir sér hvers vegna ríkisstjórninni sé illa við fiskvinnslur landsins og þær konur sem þar vinna. Um sé að ræða hálauna kvennastarf sem hækkun veiðigjalda muni stefna í hættu.

Bergþór mætti í Kastljósið á mánudag þar sem hann sagði:

„Ég hef miklar áhyggjur af vinnslunni sem að er mjög arðsöm og gengur vel, skynsamlega sett upp. En grundvöllur hennar er þessi samþætting fyrirtækja sem eru með veiðar og vinnslu á einni hendi. Það er bara grundvöllur þess að markaðsstarf geti tryggt okkur þau háu verð sem að þau skila. Þetta eru bara orðin hálauna- og, að miklu leyti, kvennastörf. Til dæmis eru laun í fiskvinnslu hærri en í byggingariðnaði, svo við tökum dæmi. Og mér finnst bara mjög skrýtið að ríkisstjórn Valkyrjanna skuli vera tilbúin til að taka þá áhættu sem hér um ræðir, með þetta fyrirkomulag sem hefur gagnast okkur svona vel.“

Bergþór sagði í framhaldinu að betra væri að auka veiðina á grundvelli rannsókna til að ná hærra skattspori af útgerðinni með aukinni verðmætasköpun. Bergþór hafnar þeim málflutningi að veiðigjöldin séu í dag miðuð við „uppdiktað“ verð sem útgerðin ákveður sjálf.

„Það er ekki boðlegt að tala hér um eitthvað uppdiktað verð, þetta er bara verð sem byggir á lögum og reglum í landinu, verðlagsstofu skiptaverðs, kjarasamningum og tekjuskattslögum.“

Þetta fyrirkomulag hafi verið til fyrirmyndar á heimsvísu og gert að verkum að sjómenn séu „ef ekki hæst launaðasta launastétt landsins þá alla vega með þeim allra hæst launuðustu“.

Bergþór ítrekaði svo þessa fullyrðingu í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Enn er óútskýrt hvers vegna Valkyrjustjórninni er svona í nöp við þann stóra hóp kvenna sem vinnur í fiskvinnslum landsins, sérstaklega í því ljósi að fiskvinnslustörf eru orðin vel borguð, til dæmis eru laun í fiskvinnslu heilt yfir hærri en í mannvirkjagerð.“

Eru þetta ofurlaun?

Bergþór er ekki fyrstur til að halda því fram að ofurlaun séu greidd í fiskvinnslunni. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), skrifaði grein árið 2022 þar sem sagði meðal annars:

„Laun í fiskvinnslu á Íslandi eru hærri en meðallaun í landinu og þau hæstu í heiminum, sjómenn eru launahæsta stétt landsins og vafalítið með hæstu laun allra sjómanna á fiskiskipum í heiminum.“

Þessi fullyrðing Heiðrúnar vakti nokkra athygli en þáverandi formaður stéttarfélagsins Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, ritaði svargrein þar sem málflutningur SFS var gagnrýndur og bent á að meðallaun í fiskvinnslu væru rúmlega 200.000 krónum lægri en meðallaun á landinu, og það þrátt fyrir að fiskvinnslufólk vinni fleiri vinnustundir en gengur og gerist eða að meðaltali 195 á mánuði.

„Því miður eins og oft áður er sannleikurinn ekki alltaf hafður með í skríninu þegar forsvarsmenn sjávarútvegsins ryðjast fram á ritvöllinn með sinn gegndarlausa áróður. Í greininni er fullyrt að laun í fiskvinnslu á Íslandi séu hærri en meðallaun í landinu og þau hæstu í  heiminum. Sem fyrrverandi fiskvinnslumaður og núverandi talsmaður þeirra sem formaður í stéttarfélagi verkafólks verður manni hreinlega misboðið að sitja undir svona óróðri, þrátt fyrir að vera vanur ýmsu frá þessum samtökum,“ sagði Aðalsteinn.

Eftir grein Heiðrúnar sendi einn fiskvinnslumaður launaseðil sinn til mbl.is en þar kom fram að föst laun hans námu 387.249 kr. á mánuði, en viðkomandi var í hæsta launaflokki í starfi sínu vegna reynslu. Heildarlaun fyrir fullt starf ásamt kaupaukagreiðslum námu tæplega 450 þús.kr. á mánuði. Eftir skatt fékk viðkomandi um 344 þús. kr. útborgað.

Á árinu 2021 var svo vakin athygli á því að fiskvinnsla væri ekki lengur kvennastarf. Árum saman höfðu um 70% þeirra sem störfuðu við vinnslu verið kvenmenn en þarna á árinu 2021 hafði hlutfallið lækkað í tæplega 40%, líklega þar sem fækkun starfa í vinnslum landsins hefði sérstaklega komið niður á konum og að með aukinni vinnslu afurða á sjó hafi störfin færst úr hefðbundinni kvennastétt til hefðbundinnar karlastéttar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Diljá Mist Einarsdóttir: Trump hefur sértrúarsöfnuð í kringum sig – Ísland hefur sérstöðu

Diljá Mist Einarsdóttir: Trump hefur sértrúarsöfnuð í kringum sig – Ísland hefur sérstöðu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Heimur í höndum skemanns

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Heimur í höndum skemanns
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Áslaug Arna tekur sér leyfi á þingi til að elta langþráðan draum

Áslaug Arna tekur sér leyfi á þingi til að elta langþráðan draum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn

Steinunn Ólína skrifar: Óttaslegnir menn