Íslenska ríkið hefur verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða manni nokkrum skaðabætur. Maðurinn hafði verið handtekinn og verið í haldi lögreglu í sólarhring vegna gruns um að hafa tekið sumarbústað á leigu í því skyni að rækta þar kannabisplöntur. Maðurinn sagðist upphaflega hafa leyft öðrum manni að nota nafn sitt við að taka bústaðinn á leigu en hefði að öðru leyti ekki komið nálægt því sem átti sér stað þar nema hann hafi átt að fá hlutfall af söluhagnaði þess sem framleitt yrði. Hann dró hins vegar þessi orð sín til baka og þurfti eftir það að bíða í átta ár til að fá að vita að málið hefði verið fellt niður. Fyrir dómi viðurkenndi hann þó á ný að hafa tekið bústaðinn á leigu fyrir annan mann.
Í maí 2015 staðfesti lögreglan á Suðurlandi að bústaðurinn, sem var í hennar umdæmi, með vettvangsheimsókn hefði sannarlega verið notaður til kannabisræktunar. Eigandinn benti á manninn og sagði hann og annan einstakling hafa greitt sér leigu fyrir afnot af bústaðnum.
Maðurinn var í kjölfarið handtekinn og var í haldi lögreglu í rétt tæpan sólarhring. Leitað var á heimili hans og tölva og sími hans haldlögð. Tekin var skýrsla þrisvar sinnum af manninum. Í fyrstu skýrslutöku sagðist hann hafa grunað að nota hafi átt sumarbústaðinn til framleiðslu á fíkniefnum. Hann hafi tekið bústaðinn á leigu um áramótin að beiðni annars manns, sem hann nafngreindi. Maðurinn sagði að hann hafi átt að fá 10 prósent af þeim hagnaði sem kynni að verða af sölu efnanna. Hann hafi fengið vinkonu sína til að leggja leigugreiðslurnar inn á reikning leigusalans.
Í annarri skýrslutökunni var framburður mannsins eilítið óljósari. Hann sagðist hafa verið beðinn um að vera leigutaki sumarbústaðar. Honum hafi ekki verið kynnt af hverju eða fyrir hvað það hefði átt að vera. Hann hafi í fyrstu ekki verið hrifinn af hugmyndinni vegna útgjalda en þá hafi honum verið lofað að þetta yrði greitt, en raunverulegur leigutaki hafi verið með dóma á bakinu og ekki getað leigt bústaðinn sjálfur. Maðurinn vildi meina að hann hafi ekki vitað nákvæmlega hvað hafi verið að fara að gerast í bústaðnum. Hann væri þó ekki vitlaus og hafi grunað að það væri „eitthvað verið að bralla þarna“.
Þegar kom að þriðju skýrslutökunni sem fór fram fimm dögum eftir að manninum var sleppt úr haldi vildi hann hins vegar draga fyrri framburð sinn alveg til baka. Sagðist hann hafa logið upp á vin sinn með fullyrðingum um að vinurinn væri sá sem raunverulega hefði tekið sumarbústaðinn á leigu. Vinurinn hefði hins vegar ekki tengst bústaðnum eða framleiðslu fíkniefna á nokkurn hátt.
Maðurinn hélt því fram í stefnu sinni á hendur ríkinu að hann hefði aldrei verið látinn vita af því að rannsókn málsins hefði á endanum verið felld niður. Árið 2023, átta árum eftir að hann var handtekinn, hafi þáverandi lögmaður hans spurst fyrir um stöðu málsins hjá lögreglu og fengið þau svör að rannsókn hefði verið felld niður 2018. Hafi lögregla veitt þau svör að á þeim tíma hafi tilkynningar um niðurfellingu verið sendar í bréfpósti og í þessu tilfelli hafi líklega ekki verið gert afrit af bréfinu.
Maðurinn krafðist um 940.000 króna í skaðabætur fyrir ólögmæta handtöku, ólögmæta húsleit og haldlagningu á síma hans og tölvu. Tölvuna hafi hann ekki getað notað í námi sínu og vinnu og í henni hafi verið ýmis persónuleg gögn. Vildi maðurinn meina að tækin hafi verið svo lengi í vörslu lögreglu að þau hafi úrelst.
Ríkið krafðist þess að maðurinn fengi engar bætur ekki síst þar sem hann hafi sjálfur borið ábyrgð á þeim aðgerðum sem beindust að honum með upphaflegri játningu sinni. Aðgerðir lögreglu hafi alls ekki verið tilefnislausar.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að fyrir liggi að maðurinn hafi tekið sumarbústaðinn á leigu sem síðan hafi verið nýttur til ólögmætrar ræktunar fíkniefna. Því hafi legið fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi mannsins. Handtaka mannsins, húsleit á heimili hans og haldlagning tölvu hans og síma hafi því alt verið fyllilega lögmætar aðgerðir en þar sem rannsókn málsins hafi verið felld niður eigi hann samkvæmt lögum rétt á bótum.
Í niðurstöðunni segir hins vegar að fyrir dómi hafi maðurinn sagst hafa leyft að sitt nafn yrði sett á leigusamninginn þar sem raunverulegur leigutaki ætti erfitt með að vera skráður fyrir leigusamningi þar sem hann ætti refsidóma að baki. Það sé svo staðreynd að stunduð hafi verið fíkniefnaframleiðsla í sumarbústaðnum næstu mánuði.
Í niðurstöðunni er bent á það mikla misræmi sem var í framburði mannsins hjá lögreglu. Hann hafi fyrst játað en svo dregið allt til baka. Skýringar hans á þessu misræmi séu ótrúverðugar. Með þessu háttalagi sínu að vera margsaga hafi maðurinn sjálfur stuððlað að þeim aðgerðum sem beindust að honum. Það þyki þó ekki rétt að fella bætur til hans alfarið niður eins og ríkið krafðist en við þessar aðstæður verði að skerða þær. Á móti verði að horfa til þess að verulega hafi dregist að tilkynna manninum um niðurfellingu málsins og að af þeim sökum hafi tölva hans og sími verið óþarflega lengi í haldi lögreglu.
Manninum voru því dæmdar 90.000 krónur í skaðabætur, um 10 prósent þess sem hann krafðist, auk vaxta og dráttarvaxta.