Jón G Hauksson og Sigurður Már Jónsson ræða málefni Bláa lónsins, en stefnt er að því að ljúka skráningu þess á markað á næsta ári, ef markaðsaðstæður og ytri aðstæður leyfa.
Ritstjórarnir telja þetta djarft skref enda ríkir enn mikil óvissa um framvindu jarðhræringa á svæðinu.
„Sem var dregið til baka eðlilega í kringum jarðhræringarnar. En nú er upplýsing frá Grími Sæmundssyni, forstjóra Bláa lónsins, að þeir stefni að þessu og ljúka skráningu inn á markað á næsta ári. Og við þurfum náttúrulega að velta því fyrir okkur hvernig við sjáum það. Mér finnst þetta djarft skref, ég verð að segja það. Miðað við að óvissu er ekki lokið á þessu svæði. En við vitum það öll, í góðu ári er rekstur Bláa lónsins frábær og það er búið að byggja félagið upp á athyglisverðan hátt, auka tekjustofna þess og það nær yfir miklu víðtækari starfsemi en bara Bláa lónið þarna hérna við Svartsengi,“
segir Sigurður í nýjasta þætti þeirra félaga í Hluthafaspjallið á Brotkast. Veltir hann upp hvort þeir fjárfestar sem vilja vera með séu ekki dálítið áhættusæknir.
„Gefum okkur það að það sé verið að hægjast á þessum hræringum. Við vitum ekkert um það,“ segir Jón. Sem Sigurður botnar með að það viti fjárfestarnir ekki heldur og ekki heldur jarðfræðingar.
„Áður en jarðhræringarnar urðu, þá var Bláa lónið í rauninni peningamaskína. Það bara framleiddi hagnað og hagnað og hagnað og þekktasta vörumerki á Íslandi. Og það er svolítið síðan að það stóð til að fara með það sko í skráningu. En það er bara ánægjulegt ef að skrá þetta og menn eru tilbúnir að fara þarna inn. Lífeyrissjóðirnir eiga náttúrlega stóran hluta í þessu í dag.“
Sigurður segir þá vera að hugsa til litlu hluthafana og auðvitað verði hver og einn að meta stöðuna og á hvaða gengi hlutir veri seldir.
„Ef það væri ekki fyrir þessar jarðhræringar þá væri ekki spurning að þetta væri athyglisverð fjárfesting og miðað við hvaða útboðsgengi verður Það er náttúrulega, verður líka að bjóða gott verð fyrir fólk.“
Bendir Jón á að tvö ár eru liðin frá því að stóð til að setja Bláa lónið á markað, menn hafi hægt á sér síðan. 2023 hafi hlutabréfamarkaðurinn verið mjög erfiður á Íslandi og gengið lágt og menn því ekki viljað fara af stað þá. „Lífeyrissjóðirnir mega ekki eiga náttúrlega mikla peninga endalaust í óskráðum fyrirtækjum.“
Sigurður segist sammála því frábær uppbygging hafi verið hjá Bláa lóninu og það sé frábært fyrirtæki.
„En hversu góður fjárfestingarkostur er þetta fyrir litla hluthafa? Og það á að fara selja hann í þessu ástandi.“
Jón segir að ekki megi gleyma því að Bláa lónið sé ekki bara Bláa lónið á Reykjanesi.
„Þeir eru með baðlón í Mývatnssveit, Laugarvatni og fleiri stöðum.“ Ljóst sé að fyrirtækið sé að auka starfsemi sína. „Þannig að að við sjáum að Bláa lónið sem byrjaði sem blátt lón eða lítið lón sem hitaveita. Og það er búið að færa Bláa lónið einu sinni. Eins og þú sagðir, það er líka búið að byggja þarna glæsilegasta hótel á Íslandi sem er við Bláa lónið. Bláa lónið er líka komið út um allt land getum við sagt. Þetta er ekki sama fyrirtækið og þetta sé bara einhver eitt lón hérna suður með sjó, heldur er þetta meira.“
„Allir vita að þetta er frábært verkefni, hvernig þetta hefur verið staðið að uppbyggingu félagsins. Og það er verið að stækka og renna fleiri stoðum undir tekjuöflun félagsins. En það, við komum alltaf að því í þessu ástandi, er það gott fyrir litla hluthafa að fjárfesta í þessu. Hann verður að fara að lesa jarðfræði.“
Horfa má á þáttinn í heild sinni á Brotkast.