Fulham tók á móti Tottenham í síðasta leik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.
Gestirnir höfðu aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum áður en kom að rimmu kvöldsins og verið í vandræðum. Þeir þurftu á sigri að halda.
Nýliðar Fulham hafa aftur á móti komið öllum á óvart og verið í baráttunni í efri hlutanum það sem af er leiktíð.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Það var hins vegar Harry Kane sem kom Tottenham yfir í uppbótartíma hans með góðu marki og sá til þess að gestirnir leiddu í leikhléi.
Fulham reyndi að finna jöfnunarmark í seinni hálfleik en Tottenham stóð vörnina vel. Liðið fékk þó einnig færi til að tvöfalda forskot sitt.
Meira var ekki skorað og lokatölur 0-1, Tottenham í vil.
Úrslitin þýða að lærisveinar Antonio Conte eru í fimmta sæti með 36 stig. Fulham er í því sjöunda með 31 stig.