

Óttarr Proppé er sagður hafa óskað eftir því að verða heilbrigðisráðherra og valdi sér um leið málaflokk sem er engan veginn auðveldur viðfangs. Nú vill heilbrigðisráðherra flokka rafrettur með hefðbundnu tóbaki og gera þeim sem vilja venja sig af venjulegu tóbaki og nota rafrettur verulega erfitt fyrir. Það er mjög umdeilt því ýmsar rannsóknir benda til að rafrettur séu fjarri því jafn hættulegar og sígarettur. Ungir Píratar gagnrýna ráðherrann mjög fyrir þessar fyrirætlanir og fordæma í ályktun „þessa vanhugsuðu forræðishyggju“. Nú er það svo að enn hafa drög að frumvarpi um rafsígarettur ekki verið birt á vefsíðu ráðuneytisins. Vera má að frumvarpið sé hið þarfasta og muni verða til mikilla bóta verði það samþykkt. Um það er hins vegar ekki hægt að segja að svo komnu máli og ráðherra er þögull sem gröfin. Á meðan fara menn mikinn í umræðu um frumvarpið, sem enginn hefur séð, og Óttarr fær á baukinn fyrir vikið. Það telst ekki mikil stjórnkænska.