

„Ég er alger byrjandi í útgerð og menn taka kannski tillit til þess er þeir ræða við mig. En ég hef fulla þekkingu á fullvinnslu og sölu á ferskum fiski,“ segir Kristján Berg Ásgeirsson, betur þekktur sem Fiskikóngurinn. Kristján hefur verið viðloðandi fisksölu síðan í lok níunda áratugarins og hefur nú áhuga á að fara af stað í útgerð.
Kristján greinir sjálfur frá þessu í auglýsingu sem birtist á Facebook-síðu Fiskikóngsins og óskar eftir að kaupa bát og kvóta eða að kaupa sig inn í útgerð. Í auglýsingunni segist hann vanta vana menn til að reka og stjórna bátnum. Markmiðið er að viðskiptavinir hans fái flottan og splunkunýjan fisk.