

Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, steig í ræðustól Alþingis síðastliðinn fimmtudag og flutti jómfrúrræðu sína en hennar hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Páll sá sig knúinn til að koma í pontu til að lýsa yfir andstöðu sinni við frumvarp um að sala á áfengi verði gefin frjáls. Það vekur nokkra athygli að foringi Sjálfstæðismanna á Suðurlandi skuli vera andsnúinn frumvarpi sem fyrirfram má gera ráð fyrir að mæti hvað mestri velvild innan Sjálfstæðisflokksins. Það vill reyndar svo til að einn flutningsmanna frumvarpsins er einmitt einn af þingmönnum Sjálfstæðismanna á Suðurlandi, Vilhjálmur Árnason.